MND félagið hefur enn stigið rösklega fram og lagt starfsemi Landspítala - háskólasjúkrahúss lið með fjölmörgum gjöfum til taugalækningadeildar. Af því tilefni var athöfn á Landspítala Fossvogi föstudaginn 26. ágúst 2005.
Guðjón Sigurðsson formaður MND félagsins las upp langan lista yfir gjafir þess frá áramótum en í fyrra gaf félagið líka mjög margt til spítalans:
„Ég vil leggja áherslu á við sem hér erum, erum og verðum að vera í sama liðinu, okkar sameiginlega markmið er öflug taugalækningadeild. Um leið og ég afhendi ykkur sem hjá teyminu og deildinni starfa, eitthvað smáræði, vil ég gera grein fyrir gjöfunum í örstuttu máli. Það eru nefnilega til félagasamtök og einstaklingar sem telja svona gjafir hina mestu sóun á fé og segja: Ríkið á að skaffa þetta. Við hjá MND félaginu hins vegar höfum horft á stöðuna eins og hún er og þess vegna gefum við.
Sá búnaður sem við höfum gefið frá áramótum er:
1. Loftlyftur á böð. Til að auka þægindi sjúklinga og ekki síður til að starfsfólk endist betur.
2. Loftlyfta í eina stofu, sem við erum að gera eins vel úr garði, til að hún hæfi mikið veikum eins og MND veikir gjarnan verða. Loftlyftur eiga auðvitað að vera "standard" í öllum vinnurýmum.
3. Mælir til mælinga á súrefnismettun blóðs, síriti, sem hjálpar til við mat á öndunargetu og hvort frekari aðgerða er þörf.
4. Blóðþrýstingsmælir með innbyggðum súrefnismettunarmæli og hitamæli.
5. Vinnustóll fyrir starfsmenn til notkunar við mötun og álíka.
6. Svefnbekk sem hægt er að grípa til og leyfa aðstandendum að leggja sig á.
7. Tveir koddar frá Sissel. Heilsukoddar. Aukin þægindi fyrir sjúklinga.
8. Tvö flutningsbretti til að flytja sjúkling úr rúmi í stól. Þægindi fyrir báða.
9. Þrjú burðarbelti, sem þýðir að það verða belti í hverri stofu. Sparar bak starfsmanna.
10. Stálborð með hillu, 2 stk. Léttir undir með starfsmönnum.
11. Skjóltjöld, 2 stk. Hægt að auka "prívat" sjúklinga á stofum og ekki sé talað um á göngum.
12. Tvö vökvastatíf. Komur í dagdeild gera oft ekki boð á undan sér og því veitir ekki af aukabúnaði.
13. Tvö gelpúðapör sem notuð eru við þrýstisárum á olnboga og hæl.
14. Upptökutæki sem notað er af talmeinafræðingi í rannsóknarvinnu.
15. Rúmdýna sem teymið mun úthluta til þess er sárast vantar. Þetta er dýna sem kostar um 600.000 með stjórnbúnaði og kemur í veg fyrir legusár sjúklinga. Tryggingastofnun veitir okkur sjúklingum 20.000 kr. dýnustyrk, sem dugar skammt. Nú liggur fyrir beiðni hjá Tryggingarstofnun um að við MND sjúklingar fáum þennan búnað hjá þeim. Við taugasjúkir erum "dýrir" sjúklingar fyrir kerfið en hvað kostum við inná spítala en ekki heima?
16. Augnmús sem MND teymið mun úthluta til þess sjúklings sem mest þarf á að halda.
17. Fartölva sem gengur með augnmúsinni svo viðkomandi einstaklingur sé ekki bundinn á einum stað.
Tvennt það síðasttalda varð að veruleika með söfnun Maggýjar og fjölskyldu (á mynd í hjólastól). Auk vina og félaga. Þetta mun verða formlega afhent síðar en er komið í notkun nú þegar.
Einnig má geta þess að vatnsvél fyrir alla þyrsta er komin í hús með tilstuðlan MND félagsins.
Ég bið ykkur öll um að njóta vel þessa búnaðar, svo og öllum öðrum sjúklingahópum sem njóta þessa með okkur. Jafnvel þó stjórnir félaganna telji þetta gjafastand fyrir neðan allar hellur.
Guðjón Sigurðsson
formaður MND félagsins“
(á mynd vinstra megin við Maggý)
Mynd fyrir ofan: Starfsfólkið á taugalækningadeild tók vel á móti skjólstæðingum sínum og færði, ásamt stjórnendum LSH, félagsmönnum í MND innilegar þakkir fyrir rausnarskapinn.
Athyglisverð lesning:
Maggý er með bloggsíðuna mnd líf
MND félagið á Íslandi
Margar gjafir MND líka í fyrra (Ársskýrsla LSH 2004 - bls. 32)
Fjöldi gjafa frá MND félaginu
Taugalækningadeild hefur borist fjöldi gjafa frá MND félaginu að undanförnu sem koma vel sjúklingum, aðstandendum og starfsfólki. Fulltrúar félagsins voru af þessu tilefni í heimsókn á Landspítala Fossvogi 26 ágúst 2005.