Ávarp Magnúsar Péturssonar forstjóra LSH á fundum heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra með starfsmönnum Landspítala - háskólasjúkrahúss.
7. september 2005.
Ágæti heilbrigðisráðherra, hjartanlega velkominn!
Starfsmenn Landpítala - háskólasjúkrahúss meta afar mikils ákvörðun stjórnvalda um byggingu nýs hátæknisjúkrahúss og heimsókn þína í dag, til að gera okkur grein fyrir viðhorfum þínum til uppbyggingar og framtíðar spítalans.
Ég býð starfsmenn spítalans innilega velkomna, einnig stjórnarnefnd spítalans, háskólarektor og forseta læknadeildar og hjúkrunarfræðideildar sem eru gestir okkar á þessari stundu.
Við leggjum upp úr því að sem flestir starfsmenn eigi þess kost að hitta þig og hlýða á, því eru fundir haldnir í matsölum beggja megin húsa spítalans, við Hringbraut og í Fossvogi. Fundirnir eru auk þess teknir upp á myndband og verður því efni dreift á neti spítalans fyrir þá sem eiga ekki kost á að vera hér núna.
Við ákváðum að tjalda því sem til er, íslenski fáninn blaktir við öll hús spítalans þar sem aðstæður leyfa, það er ókeypis í mat í tilefni dagsins og einhverjir hafa farið í sparifötin.
Það eru tímamót í sögu heilbrigðismála landsmanna. Trúlega hefur ekki verið tekin öllu viðameiri ákvörðun um uppbyggingu í heilbrigðisþjónustu, heilbrigðismenntun og rannsóknum en sú sem kynnt var í gær. Hún nýtur almenns stuðnings starfsfólks þessa spítala og verður okkur hvatning til áframhaldandi starfa. Það er spítalanum einnig mjög mikilvægt - og vegur þungt í starfsminni hér - að 1 milljarði er ætlað til úrlausnar í búsetumálum geðfatlaðra.
Ákvörðun um ráðstöfun fjármagnsins til spítalans er eins vel tímasett og frekast má vera. Nú þurfum við ekki að sjá nauðsynlegt fjármagn í hillingum, heldur í hendi. Það er afar góð tilfinning einmitt nú, því skipulagstillögum í samkeppninni um lóð spítalans verður skilað á morgun og úrslitin kynnt 6. október n.k.
Nú eru bjartir dagar!