Ávarp Jóns Kristjánssonar heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á fundum með starfsmönnum Landspítala - háskólasjúkrahúss.
7. september 2005.
Ágætu starfsmenn!.
Ég þakka fyrir að fá tækifæri til að kynna ykkur milliliðalaust ákvörðun ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu ný spítala.
Sú ákvörðun hvílir á þeirri skoðun að verulegum hluta söluandvirðis Símans verði varið í að bæta þjónustu í heilbrigðiskerfinu, styrkja rannsóknar- og þróunarstarf og örva þannig frumkvöðlastarfsemi og nýsköpun í atvinnulífinu, treysta undirstöður byggðar í landinu og skapa jöfn skilyrði til atvinnu með bættum samgöngum og jöfnun aðstöðu landsmanna hvað varðar aðgengi að fjarskiptum.
Með þessu er verið að skila þjóðinni aftur þeim verðmætum sem þjóðin skóp með rekstri Símans.
Þetta þýðir að 18 milljörðum króna verður varið til uppbyggingar hátæknisjúkrahúss á Landspítalalóðinni á árunum 2008 - 2012. Með framlaginu er unnt að ljúka skipulagsvinnu og undirbúningi svæðisins, byggja aðstöðu fyrir slysa- og bráðaþjónustu og koma upp aðstöðu fyrir rannsóknarstarfsemi. Þetta liggur nú fyrir.
Á morgun skila fulltrúar þeirra sjö hópa sem valdir voru til að taka þátt í hugmyndasamkeppni um skipulag á Landspítalalóðinni. 6. október verða hugmyndirnar kynntar og þá liggur fyrir að taka næstu skref og hefja undirbúning af fullum krafti.
Ágætu starfsmenn.
Fyrir mig sem heilbrigðismálaráðherra eru tímamótin í íslensku heilbrigðisþjónustunni sem nú eru í augsýn afar ánægjuleg tíðindi með því að nú hefur því verið slegið föstu að 18 milljarðar króna renna til byggingar nýs Landspítala.
Þetta er það sem við höfum vonast til að samkomulag næðist um. Þetta er sá draumur sem við höfum átt.
Nýr Landspítali er flókin framkvæmd og það felst í fyrirætlaninni mikil áskorun fyrir heilbrigðisyfirvöld, stjórnendur og alla starfsmenn spítalans. Það verður að vanda mjög framkvæmdina og það er nauðsynlegt að taka með sér allan þann góða farangur fortíðarinnar inn í þá framtíð sem blasir við.
Ég ætla ekki að dvelja við fortíðina en vil bara draga fram að sú ákvörðun sem nú hefur verið tekin byggist á ákvörðun forvera míns í embætti að sameina spítalana og vitaskuld á þeim árangri sem þið hafið náð innan spítalans á þeim umbrotatímum sem sameiningin hlaut að verða. Þetta síðasta er kannski ein skýringin á því að víðtæk sátt er um það að fara þá leið að byggja upp nýjan glæsilegan spítala við Hringbraut.
Í ákvörðuninni felst líka að hvatning fyrir okkur öll að halda áfram, að gera þjónustuna fjölbreyttari, - í henni felast möguleikar á því að setja okkur ný viðmið í lækningum og hjúkrun – það skapast enn betri möguleikar á að bera okkur saman við það sem best gerist með öðrum þjóðum í heilbrigðisþjónustunni.
Nýr Landspítali knýr okkur líka til að hugsa spítalaþjónustu á þessu stigi upp á nýtt, við þurfum að skilgreina hlutverk hins nýja spítala, en ekki síður þá spítalastarfsemi og raunar þá heilbrigðisþjónustu sem veitt er í tengslum við, eða í námunda við þá stofnun sem þjónar öllum landsmönnum.
Þannig er verkefnið sem bíður okkar nú ekki bara að reisa hús og byggingar heldur ekki síður að taka ákvarðanir um starfsemina sem hér fer fram og þar með hvað gert er á öðrum sviðum heilbrigðisþjónustunnar. Landspítalinn hefur verið og verður meginstoð heilbrigðisþjónustunnar í skilningi lækninga og hjúkrunar að ekki sé talað um rannsóknir og kennslu.
Mikilvægi rannsókna og vísinda á heilbrigðissviði fer vaxandi og þar gegna einmitt háskólasjúkrahúsin lykilhlutverki. Ég sé fyrir mér að þetta verði hlutverk hins nýja Landspítala. Ég sé fyrir mér nýjan Landspítala sem veitir fyrirtaks þjónustu og þar sem unnt er að framkvæma flóknar aðgerðir á sem flestum sviðum.
Við erum hér í raun og veru að tala um þekkingarmiðstöð framtíðarinnar á heilbrigðissviði, miðstöð, eða háskólaspítala sem allir aðrir geta sótt í þekkingu, hátækni- og sérfræðiþjónustu.
Með ákvörðuninni um byggingu nýs spítala við Hringbraut er okkur falið erfitt verkefni, það er flókið en umfram allt er það afar spennandi og það skiptir okkur sem þjóð miklu máli að okkur takist að leysa þetta verkefni.