Fjölmenni og fögnuður á fundum heilbrigðisráðherra með starfsmönnum LSH
Starfsmenn Landspítala - háskólasjúkrahúss fögnuðu Jóni Kristjánssyni heilbrigðismálaráðherra vel þegar hann kom í matsalina í Fossvogi og við Hringbraut miðvikudaginn 7. september 2005 til þess að fjalla nánar um þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að verja 18 milljörðum króna til þess að byggja nýtt sjúkrahús við Hringbraut. Á báðum stöðum var fullt hús og fundirnir voru teknir upp á myndband sem sýnt verður í sjónvarpskerfi spítalans. Til fundarins við Hringbraut komu einnig háskólarektor, forsetar læknadeildar og hjúkrunarfræðideildar og stjórnarnefnd LSH, auk fjölmiðlafólks.
Mikil ánægja ríkir á LSH með þau merku tímamót í uppbyggingu háskólasjúkrahússins sem tilkynnt var um í gær, menn brosa breitt, fánar blakta víða við hún og það þurfti ekkert að borga fyrir mat í matsölum í hádeginu!
Magnús Pétursson forstjóri LSH bauð heilbrigðisráðherra velkominn á fundina og flutti inngangsorð - smellið hér.
Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra flutti ræðu og greindi nánar frá ákvörðun ríkisstjórnarinnar - smellið hér.
Fulltrúar starfsmanna, Jóhann Heiðar Jóhannsson við Hringbraut og Sigríður Guðmundsdóttir í Fossvogi, lásu upp drög að samþykkt um ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Þau báru samþykktina undir fundina og staðfestu fundarmenn hana með lófaklappi. Ályktunin var síðan afhent ráðherranum. (Jóhann Heiðar og Sigríður eru á neðstu myndunum)
Samþykkt starfsmanna LSH - smellið hér.
Sjá líka....
um Valhallarfundinn og vef LSH um nýjan spítala