Skurðlæknarnir Björn G. Leifsson og Hjörtur G. Gíslason og milli þeirra eru Rune Sandbu skurðlæknir og Line Kristin Johnson næringarfræðingur frá Noregi. Myndin var tekin í lok fundar með blaða- og fréttamönnum föstudaginn 16. september 2005. |
Tólf sjúklingar frá Noregi gangast þessa dagana undir offituaðgerð á Landspítala - háskólasjúkrahúsi. Aðgerðin felst í því að minnka maga og stytta þarma í því skyni að auðvelda þeim að léttast. Þessir einstaklingar eiga við gríðarlega offitu að stríða og hafa verið í endurhæfingu og undirbúningi fyrir aðgerðir sínar undanfarna mánuði í Noregi. Skurðlæknarnir Hjörtur G. Gíslason og Björn G. Leifsson gerðu aðgerðirnar ásamt fjölda sérþjálfaðs starfsfólks spítalans. Hópur norskra heilbrigðisstarfsmanna fylgdi sjúklingunum hingað til lands, þar á meðal læknar, hjúkrunarfræðingar, næringarráðgjafar og fleiri. Rune Sandbu yfirlæknir frá Tönsberg hafði kynnt sér aðgerðartækni og árangur teymisins á LSH sem hefur annast offitusjúklinga. Í kjölfarið varð gerður samningur milli LSH og norskra heilbrigðisyfirvalda um það senda hingað til lands hóp sjúklinga í slíkar aðgerðir. Ávinningur LSH af samstarfi sem þessu felst m.a. í því að nýta og koma á framfæri afburðarþekkingu og þjálfun starfsmanna á þessu sviði. Auk þess er hér stigið skref í þá átt að auka möguleika spítalans á því að afla sér tekna og koma sér á framfæri í alþjóðlegu umhverfi heilbrigðisþjónustu. Fullyrða má að það mun færast í vöxt á næstu árum að sjúklingar leiti heilbrigðisþjónustu þar sem hún stendur fremst hvað varðar gæði, árangur og verð. Slíkt verði að miklu leyti óháð landamærum. |
Nánar um offituaðgerðir á LSH og
samstarf sjúkrahússins við Reykjalund varðandi þær
Byrjað var á offituaðgerðum með kviðsjártækni á Landspítala - háskólasjúkrahúsi í lok ársins 2000. Síðan þá hafa verið 70 - 90 aðgerðir á ári í gegnum kviðsjá, alls tæplega 300 frá upphafi.
Aðgerðin felst í því að tengt er framhjá yfir 95% af maganum og efri þriðjungi af mjógirninu. Þetta leiðir til þess að sjúklingur getur aðeins borðað litla matarskammta í einu. Ef hann borðar ranga fæðu, sérstaklega feitan mat, nýtist fitan ekki að fullu og sjúklingur fær svokallaða fituskitu sem gerir að verkum að hann sneiðir hjá feitum mat. Einnig minnkar matarlystin mjög eftir aðgerð.
Aðgerðin eru gerð í gegnum fimm lítil göt á kviðnum með hjálp kviðsjár. Sjúklingarnir eru nokkuð hressir alveg frá fyrsta degi, fara á fætur að kveldi aðgerðardags og heim á þriðja degi eftir aðgerð. Árangur hefur verið góður því 90% sjúklinga missa u.þ.b. 80 - 90% af yfirþyngdinni og flestir fara niður að kjörþyngd eftir eitt og hálft til tvö ár.
Sjúklegri offitu fylgja margvíslegir fylgisjúkdómar svo sem of hár blóðþrýstingur, sykursýki, kæfisvefn, vélindabakflæði, of há blóðfita, hjarta- og æðasjúkdómar, geðdeyfð og félagsfælni. Margt af þessu lagast eftir aðgerð er sjúklingur léttist. Þótt aðgerðirnar séu eru þær taldar borga sig upp á tveimur til þremur árum því lyfjakostnaður snarminnkar og sjúklingar komast fljótt í vinnu. Aðgerð getur líka komið í veg fyrir að fólk hrekist úr vinnu vegna sjúkdómsins.
Aðgerðirnar á Landspítala eru í umsjá Hjartar Gíslasonar og Björns Geirs Leifssonar skurðlækna og auk þess er starfrækt á spítalanum göngudeild megrunaraðgerða þar sem koma að málum hjúkrunarfræðingar göngudeildarinnar og Svava Engilbertsdóttir næringarráðgjafi auk fyrrnefndra skurðlækna. Aðgerðarteymið er í náinni samvinnu við þverfaglegt teymi á Reykjalundi sem annast atferlismeðferð og undirbúning sjúklinga fyrir aðgerð. Þessu meðferðarteymi stýrir Ludvig Guðmundsson endurhæfingarlæknir og eru sjúklingar í göngudeildarmeðferð í langan tíma áður en aðgerð er ákveðin. Gerð er sú krafa að sjúklingar sýni árangur með því að léttast, að þeir sýni skilning á vandamáli sínu og ábyrgð í verki. Sjúklingar sem hafa farið í aðgerðina skuldbinda sig í ævilangt eftirlit.
Það afbrigði offituaðgerðar sem sérfræðingarnir hér hafa þróað og nota hefur vakið mikla athygli erlendis ásamt undirbúningnum á Reykjalundi. Hægt er að gera þessar aðgerðir á marga vegu en árangurinn á LSH hefur verið sérlega góður og fylgikvillar fáir. Það hefur leitt til þess að LSH hefur tekið forystu á Norðurlöndunum varðandi offituaðgerðir og starfsfólk sjúkrahúsa í Danmörku, Noregi og einnig frá Birmingham í Bretlandi hefur komið hingað á námskeið til að læra íslensku aðferðina af sérfræðingunum hér.
Megrunaraðgerðir vegna sjúklegrar offitu hafa verið stundaðar í marga áratugi. Á sjöunda og áttunda áratugnum voru hjáveituaðgerðir af stærsta hluta mjógirnis vinsælar. Þær lögðust síðan af þar sem fylgikvillar voru miklir. Næst fylgdu svokallaðar sultarólaraðgerðir þar sem þrengt er að efsta hluta magans. Þessar aðgerðir voru gerðar á Íslandi frá 1980 til 1998. Þær hafa að mestu lagst af þar sem langtíma árangur þótti ekki fullnægjandi. Hjáveituaðgerð á maga og efsta hluta mjógirnis hefur verið þekkt í um 20 ár en sú aðgerð náði ekki vinsældum fyrr en nýlega með tilkomu breyttrar tækni. Árangur er mjög góður til langs tíma en áður voru þetta stórar og opnar skurðaðgerðir með töluvert hárri tíðni fylgikvilla. Með tilkomu heftibyssna, sem komast í gegnum mjó göt, og hljóðbylgjuskæra er hægt að beita kviðsjárholstækni við þessar sömu aðgerðir. Allen Wihtgrew byrjaði á því í Bandaríkjunum 1997.
Skilyrði fyrir aðgerð
Mikilvægt er að sjúklingar geri sér grein fyrir því að aðgerð er aðeins hluti af meðferðinni. Offita er lífsstílssjúkdómur og til að góður árangur náist þurfa sjúklingar að takast á við rót vandans. Aðgerðin er ekki tilfegrunar heldur til að fyrirbyggja eða meðhöndla fylgisjúkdóma alvarlegrar offitu.
Það sem þarf er m.a.:
· að þyngdarstuðull sé um eða yfir 45.
· að sjúklingur sé yngri en 55 ára.
· að sjúklingur hafi reynt önnur úrrææði til hlítar.
· meðferðarprógram fyrir aðgerð á Reykjalundi.
· bréf frá heimilislækni þar sem hann styður ákvörðun um aðgerð. Þetta er mikilvægt því eftir aðgerð er þörf á ævilöngu eftirliti.
· að sjúklingur sé líklegur til að geta tekist á við þau vandamál sem upp geta komið eftir aðgerð.
· að sjúklingur sé ekki virkur alkóhólisti.