Landspítali - háskólasjúkrahús (LSH) og Sjúkrahúsið og heilsugæslustöðin á Akranesi (SHA) undirrituðu í dag samstarfssamning. Markmið samningsins er að auka samstarf SHA og LSH. Stefnt er að auknu samstarfi vegna þjónustu við sjúklinga, kennslu og fræðslumála, rannsókna, rekstrar og á sviði upplýsingatækni.
Með samningnum eru skilgreind þau verkefni sem samningsaðilar ætla sér að eiga samstarf um, skipulag og þróun þeirra, hvernig staðið skuli að upptöku nýrra samstarfsverkefna og ábyrgðarsvið aðila. Til að stuðla að styttingu biðlista áforma sjúkrahúsin, sem dæmi, að hafa samstarf á sviðum þar sem biðlistar eru langir.
Stofnanirnar eiga nú þegar í samstarfi á nokkrum sviðum og stefnt er að því að hefja gerð samninga um aðra þætti, m.a. í krabbameinslækningum, geðheilbrigðisþjónustu, myndgreiningarþjónustu, meinefnafræði og kvensjúkdómum. Fyrsti samningurinn verður undirritaður á næstu dögum en hann fjallar um samræmingu á sviði gæðamála og vinnuferla.
Samningur LSH og SHA |