Ávarpsorð Magnúsar Péturssonar forstjóra LSH við
afhendingu dómnefndar á niðurstöðu í samkeppni
um skipulag lóðar vegna nýs spítala
12. október 2005
Ráðherrar, rektor og aðrir góðir gestir!
Mér er afar ljúft að taka til máls fyrir hönd starfsmanna Landspítala - háskólasjúkrahúss á þessum degi.
Val á meginskipulagi nýs sjúkrahúss landsmanna mun án efa skipta okkur gríðarlegu máli um langa framtíð.
Ég tek undir orð heilbrigðisráðherra að mörgum beri að þakka fyrir vel unnið verk.
Fyrst stjórnvöldum fyrir stuðning við það sjónarmið, að tryggja eigi góða heilbrigðisþjónustu í landinu og bæta
aðstæður sjúklinga og starfsfólks á háskólasjúkrahúsinu. Fyrrverandi og núverandi heilbrigðisráðherrar og stjórnvöld,
lýsa afstöðu sinni með fjárframlögum til verkefnisins og telja þar með að það sé þjóðinni sæmandi að reisa nýtt sjúkrahús landsmanna.
Fyrir þessa framsýni erum við afar þakklát.
Þá færi ég dómnefndinni og þátttakendum í samkeppninni miklar þakkir fyrir einkar gott starf.
Nú liggja niðurstöður fyrir og teningunum er kastað um framhaldið. Aldrei hef ég komið að byggingarverkefni á vegum ríkisins,
þar sem fjármunir eru jafn vel tryggðir og hér og kalla beinlínis eftir teikningunum hönnuða, ef svo má segja!
Jafnan er þessu öfugt farið. Þegar áform um framkvæmdir liggja fyrir, vantar iðulega peninga til að láta verkin tala.
Ég sé fyrir mér að undir mitt ár 2008 ættu framkvæmdir að geta hafist ef fram heldur sem horfir.
Bygging hins nýja sjúkrahúss verður viðfangsefni fjölda fólks næstu árin og ég fagna sérstaklega orðum heilbrigðisráðherra
um skipun byggingarnefndar til að vinna að verkinu. Það mun ekki standa á starfsmönnum spítalans að taka þátt í því starfi
eins og þeir best kunna. Hingað til hafa þeir verið hollráðir og spáð af kostgæfni í þarfir framtíðar en jafnhliða unnið vel að
umbótum í rekstri og starfsemi spítalans. Þeir eiga sinn þátt í því að þessi samkoma er haldin.
Við sameiningu sjúkrahúsanna í Reykjavík í ársbyrjun 2000 bundu margir vonir við að til yrði hér á landi eiginlegt háskólasjúkrahús
til hagsbóta fyrir; nemendur í heilbrigðisfræðum, enn öflugra vísindastarf, og betri aðstæður sjúklinga og starfsmanna.
En það eru fleiri ástæður þess að reisa þarf nýjan spítala; aukin réttindi sjúklinga og kröfur nútímans, dreifður rekstur og hagkvæmni.
Landspítali - háskólasjúkrahús og Háskóli Íslands hafa á liðnum misserum aukið samvinnuna við að bæta enn aðstæður til menntunar.
Sérstaklega vil ég þakka fyrrverandi rektor, Páli Skúlasyni og núverandi rektor, Kristínu Ingólfsdóttur,
svo og stjórnendum heilbrigðisvísindadeilda háskólans fyrir afar gott samstarf.
Á þessu ári eru liðin 75 ár síðan Landspítalinn gamli tók til starfa. Ég tel vel við hæfi að tengja ákvörðunina um byggingu nýs spítala þessum tímamótum.
Ég leyfi mér að segja, að sjaldan hafi tekist betur að mynda samstöðu meðal landsmanna um stórverkefni.
Gríðarlegum fjármunum almennings er nú varið til almannaheilla og ég fæ ekki betur séð en að um það sé breið samstaða í landinu.
Pólitískir flokkar eru sem einn, almenningur hefur ekki gagnrýnt ákvörðun stjórnvalda hvað ég veit, starfsmenn spítalans fagna framgangi þessa máls
og ég trúi því að sjúklingar nú og í framtíð munu sammælast um að stigið hafi verið heillaspor.
Fyrir að málið skuli í höfn þakka ég heils hugar fyrir hönd starfsmanna Landspítala - háskólasjúkrahúss.