Hópur sem skipaður er íslensku arkitektastofunni Arkitektur.is, Verkfræðistofu Norðurlands, norsku verkfræðistofunni SWECO Grøner og dönsku arkitekta- og landslagsarkitektastofunum C.F. Møller og Schønherr Landskab bar sigur úr bítum í samkeppni um deiliskipulag á lóð Landspítala - háskólasjúkrahúss við Hringbraut. Niðurstaða dómnefndar var kynnt heilbrigðisráðherra við hátíðlega athöfn í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands, í dag. Tillögurnar verða til sýnis í anddyri Barnaspítala Hringsins frá 13. október nk. til mánaðamóta.
Um átta mánuðir eru frá því að ríkisstjórn Íslands samþykkti tillögu Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, um að halda áfram uppbyggingu Landspítala - háskólasjúkrahúss við Hringbraut. Forval var auglýst í byrjun febrúar og sóttu 18 fjölþjóðlegir hópar sérfræðinga um þátttöku í samkeppninni og var sjö stigahæstu boðið að keppa um skipulagið samkvæmt keppnislýsingu sem samin var af fulltrúum Landspítala - háskólasjúkrahúss (LSH), Háskóla Íslands (HÍ) og Framkvæmdasýslu ríkisins á grundvelli samþykktar ríkisstjórnarinnar.
"Úrslitin og samkeppnin marka enn einn áfangann í því margþætta verkefni sem bygging nýs spítala fyrir alla landsmenn óneitanlega er," sagði Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, við athöfnina í dag.
Ráðherra sagði að ekki væri eftir neinu að bíða varðandi áframhaldandi undirbúning eftir að ríkisstjórnin samþykkti á dögunum að 18 milljarðar króna af söluandvirði Landssímans rynnu til byggingar á nýju sjúkrahúsi. Næst á dagskrá væri áframhaldandi skipulagsvinna og hönnun mannvirkja en alls er nú gert ráð fyrir því í áætlunum að um 85 þúsund fermetrar af nýbyggingum rísi á spítalalóðinni á árunum 2009 til 2018. Jafnfram er gert ráð fyrir umtalsverðum endurbótum á eldri húsum Landspítala - háskólasjúkrahúss.
Niðurstaða dómnefndar
Við mat á keppnistillögunum lagði dómnefndin höfuðáherslu á heildarlausn, yfirbragð, ytri og innri tengsl, sveigjanleika og hagkvæmni, eins og segir í umsögn hennar.
Er það einróma álit dómnefndarinnar að allar tillögurnar séu athyglisverðar og mjög vel unnar en vinningstillagan sé besti kosturinn til nánari útfærslu á deiliskipulagi sjúkrahússlóðarinnar. Hlaut hún 12 stigum hærri einkunn en næsta tillaga, eða samtals 92 stig af 100 mögulegum.
Í umsögn dómnefndar er vinningstillögunni lýst sem vandaðri og sterkri tillögu sem hafi mikla möguleika til nánari útfærslu:
"Gamla Hringbraut er færð upp að gamla spítalanum og er meginbyggingum spítalans komið fyrir sunnan hennar. Mælikvarði og hlutverk götunnar í skipulaginu er sannfærandi þar sem nýjar, jafnt sem eldri byggingar spítalans, raðast meðfram henni á látlausan hátt. Lögð er til skynsamleg lausn að nýtingu núverandi húsnæðis. Tillagan hefur heildstætt yfirbragð og gefur skýra mynd af svæðinu. Skipulag A-hluta lóðarinnar er mjög vel leyst, með rólegu yfirbragði í góðum tengslum við aðliggjandi byggð. Flest rými spítalans njóta dagsbirtu og nálægðar við útirými hans."
Þá er bent á í umsögninni að umferð sjúkrabíla, gesta og starfsmanna sé vel aðgreind en hins vegar sé staðsetning þyrlupalls ekki eins og best verði á kosið. Umferð gangandi fólks og ökutækja um svæðið sé ágætlega leyst en skýra þurfi betur aðkomu gangandi vegfarenda frá nýju Hringbraut. Einnig þarfnist aðalinngangar HÍ og LSH á sameiginlegu torgi frekari útfærslu en tenging spítalans við HÍ undir aðkomutorgi sé hins vegar vel leyst. Jafnframt sé innri tenging starfseininga spítalans góð en þó megi bæta tengingu barnadeildar við bráðakjarna.
Áfangaskipting vinningstillögunnar er mjög skýr og sannfærandi samkvæmt umsögn dómnefndarinnar. "Mikill kostur er að fyrsti áfangi hennar er byggður næst núverandi spítala, sem þýðir að um heilsteypt spítalasvæði er að ræða í lok hvers áfanga. Þróunarmöguleikar tillögunnar eru miklir og er þá meðal annars litið til fyrirkomulags skurð- og greiningadeilda," segir í umsögninni. Er dómnefndin sammála um að tillaga Arkitektur.is, Verkfræðistofu Norðurlands, C.F. Möller, Schønherr Landskab og SWECO Grøner uppfylli vel flest þau atriði sem samkeppnislýsingin kveður á um og því sé hún besti kosturinn til áframhaldandi vinnu við skipulag svæðisins.
Í ljósi þessarar niðurstöðu leggur dómnefndin til að gengið verði til samninga við vinningshafana um að þeir verði ráðgjafar Landspítala - háskólasjúkrahúss við áframhaldandi uppbyggingu spítalans.
Í dómnefndinni, sem skipuð var af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, áttu sæti Ingibjörg Pálmadóttir, fyrrverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, sem jafnframt var formaður nefndarinnar, Ragnheiður Haraldsdóttir, skrifstofustjóri heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, Jóhannes M. Gunnarsson, framkvæmdastjóri lækninga LSH, Ingólfur Þórisson framkvæmdastjóri tækni og eigna LSH og Stefán B. Sigurðsson, forseti læknadeildar HÍ. Tilnefnd af Arkitektafélagi Íslands voru arkitektarnir Málfríður Klara Kristiansen og Steinþór Kári Kárason. Ritarar dómnefndar voru Ásdís Ingþórsdóttir og Gíslína Guðmundsdóttir, arkitektar og verkefnastjórar hjá Framkvæmdasýslu ríkisins. Trúnaðarmenn voru Pétur Pétursson hjá Ríkiskaupum og Haraldur Helgason arkitekt.
Vinningstillagan sem og hinar tillögurnar sex í samkeppninni verða til sýnis í anddyri Barnaspítala Hringsins, við Hringsal, frá 13. október nk. til mánaðarloka og er aðgangur ókeypis og öllum heimill.
Bæklingur með dómnefndarálitinu - smellið hér (PDF 827Kb)
Ávarp Jóns Kristjánssonar heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra - smellið hér
Ávarp Magnúsar Pétursson forstjóra LSH - smellið hér
Vefur um byggingu nýs sjúkrahúss - smellið hér