28. október 2005
Almennur fundur læknaráðs LSH haldinn þann 28. október 2005 fagnar þeim áföngum sem náðst hafa við undirbúning bygginga fyrir sjúkrahúsið.
Þar sem nú þegar er brýn þörf fyrir umbætur í húsnæðismálum, telur læknaráð LSH mikilvægt að hraða framkvæmdum eins og auðið er og að tryggð verði heildræn fjármögnun til verkefnisins alls.
Læknaráð leggur áherslu á að unnið verði að háskólahluta verkefnisins frá upphafi framkvæmda, og er það ein af forsendum þess að háskólasjúkrahúsið geti staðið undir nafni. Þá er ljóst að bygging fyrir göngudeildir er mjög brýn og þarf að skoða allar leiðir til fjármögnunar þeirrar byggingar sem gætu leitt til að framkvæmdum lyki mun fyrr en nú er áætlað. Þá er lagt til að heilbrigðisyfirvöld skoði önnur rekstrarform á göngudeildarstarfsemi LSH, sem gæfu tækifæri til að bæta þjónustu og samhæfa betur sérfræðilæknisþjónustu á höfuðborgarsvæðinu.
Læknaráð áréttar einnig nauðsyn þess að bráðaþjónusta liggi miðlægt í sjúkrahúsinu og sé í nánd við klíníska starfsemi bráðadeilda. Í þessu samhengi hefur læknaráð áhyggjur af því að kvenna- og barnadeildir hins nýja sjúkrahúss verði of fjarri bráðaþjónustukjarna og geti það haft slæmar afleiðingar fyrir þessar mikilvægu deildir sjúkrahússins.
Ljóst er að húsnæðisvandi sjúkrahússins í dag er alvarlegur og háir starfsemi sjúkrahússins og möguleikum á frekari þróun þjónustu. Þessi vandi getur ekki beðið óleystur þar til nýtt sjúkrahús hefur verið reist. Því er nauðsynlegt að finna úrlausn, og krefst hún annað hvort nýbygginga eða nýtingu húsnæðis í námunda við sjúkrahúsið. Vandinn er sérstaklega mikill á LSH við Hringbraut og ef Heilsuverndarstöðin fengist til afnota næsta áratuginn leysti það hluta vandans.
Ljósmynd: Fjölmenni var á almennum fundi læknaráðs í Hringsal. Framsögumenn voru Jóhannes M. Gunnarsson lækningaforstjóri og Kristján Erlendsson framkvæmdastjóri kennslu, vísinda og þróunar.