Breytingar urðu 1. nóvember 2005 á slysa- og bráðasviði á Landspítala - háskólasjúkrahúsi sem miða að því að efla bráðalækningar á sjúkrahúsinu til framtíðar og hagræða í starfseminni.
Lögð verður áhersla á að þróa og efla bráðlækningar á LSH næstu árin til þess að bráðalækningar á LSH standi sem best þegar öll bráðamóttökustarfsemi flytur á einn stað á nýjum spítala. Fáir hafa lagt bráðalækningar fyrir sig og verður nú gert átak í því að hvetja unglækna til slíks náms enda er þörfin brýn nú þegar og til framtíðar litið.
Jón Baldursson, sem verið hefur yfirlæknir slysa- og bráðadeildar, hefur verið fenginn til þess að vinna að jákvæðri þróun í bráðalækningum. Í því felst meðal annars aukin kennsla unglækna, læknanema og að vinna að meiri samskiptum við útlönd með bráðalækningar í huga. Hann verður einnig yfirlæknir umfangsmikillar þjónustu slysa- og bráðasviðs utan spítalans sem felur í sér læknisfræðilega ábyrgð af hálfu LSH á öllum sjúkraflutningum höfuðborgarsvæðisins, sem eru um það bil 20 þúsund á ári, einnig á sjúkraþyrluflugi og Neyðarlínunni. Jón lærði bráðalækningar í Cincinatti í Bandaríkjunum. Hann var fyrsti læknir á Íslandi sem hlaut þá sérfræðiviðurkenningu og fyrsti læknir sem starfar sem bráðalæknir hér á landi. | ||
Ófeigur Þorgeirsson sérfræðingur í heimilis- og almennum lyflækningum verður yfirlæknir slysa- og bráðadeildar en hann hefur verið yfirlæknir gæsludeildar og ábyrgur fyrir bráðavaktinni í Fossvogi. | ||
Honum til aðstoðar verða | ||
Elísabet Benedikz sem verður aðstoðaryfirlæknir á gæsludeildinni og eitrunarmiðstöðinni og |
||
Ólafur Ingimarsson sem verður aðstoðaryfirlæknir á gönguvaktinni. |
Gæsludeildin er skammtímalegu- og ákvarðanadeild þar sem meirihluti sjúklinga á að fara heim innan sólarhrings. Hins vegar hafa sjúklingar síðustu vikur og mánuði legið á deildinni mun lengur að jafnaði.
Sem hluti aðhaldsgerða hjá slysa- og bráðasviði hefur nú verið ákveðið að fylgja því stíft eftir að sjúklingar séu ekki lengur en sólarhring á gæsludeildinni. Auk þess verður að fækka rúmum úr 12 í 8.
Eitrunarmiðstöðin er bakhjarl og þekkingarmiðstöð fyrir allt landið um eiturefni. Um það bil eitt þúsund fyrirspurnir berast henni árlega.
Hlutverk gönguvaktarinnar er að sinna hratt og vel slösuðum og minna veikum sem leita á slysa- og bráðadeild. Þeir eru á hverju ári um 35 - 40 þúsund.
Í tengslum við þessar breytingar verður verulega aukin áhersla lögð á fræðslu í slysa- og bráðafræðum innan spítalans,
meðal annars með endurlífgunarnámskeiðum fyrir starfsfólk. Með því starfi hafa áfram umsjón þær
Kristín Sigurðardóttir bráðalæknir og fræðslustjóri slysa- og bráðasviðs og | ||
Bára Benediktsdóttir hjúkrunarfræðingur. | ||
Anna María Þórðardóttir hjúkrunarfræðingur er gæðastjóri slysa- og bráðasviðs. Hún mun, í samstarfi við aðra innan spítalans, leggja m.a. vaxandi áherslu á að vinna að bættum verkferlum í starfsemi sviðsins, þar á meðal hvað varðar sjúklingaflæði, skráningar, gæðamál og fleira. |