Íslenski blóðgjafahópurinn er einn af hornsteinum heilbrigðiskerfis okkar. Án þeirra væri ekki hægt að reka nútíma læknisþjónustu. Blóðgjafar gefa bæði af tíma sínum sem og sjálfum sér. Blóðgjafar eru óeingjarn hópur sem fer ekki fram á mikið. Blóðgjafafélag Íslands er stuðnings og hagsmunaaðili blóðgjafa. Á þeim vettvangi eru m.a. hetjublóðgjöfum veittar viðurkenningar. Eitt af hagsmunamálum blóðgjafa er að Ísland verði eitt blóðgjafasvæði.
Er þá Ísland ekki eitt blóðgjafasvæði í dag? Vissulega geta blóðgjafar hvar sem er af landinu komið í Blóðbankann í Reykjavík og gefið blóð eða gefið í blóðsöfnunarbíl Blóðbankans. Sömuleiðis geta blóðgjafar hvar sem er af landinu komið í Blóðbankann á Akureyri og gefið blóð. Þeir eru velkomnir á hvorum staðnum sem er.
Gallinn á núverandi skipan mála er að á þessum tveim stöðum á landinu, eru rekin mismunandi skráningakerfi. Persónuupplýsingar flytjast ekki á milli kerfa. Upplýsingar sem allir blóðgjafar vilja halda til haga svo sem fjölda blóðgjafa og síðustu mæliniðurstöður sem og upplýsingar nauðsynlegar blóðbankaþjónustunni. Blóðgjafi sem t.d. hefur gefið hefur tíu sinnum á Akureyri getur verið nýr blóðgjafi í Reykjavík og öfugt.Þessu fylgir óhagræði fyrir blóðgjafann vegna nýskráningar á báðum stöðum. Með því að koma á einu skráningakerfi á landsvísu getum við auðveldað blóðgjöfum að velja þann stað sem þeim hentar best hverju sinni til að látið gott af sér leiða.
Björn Harðarson
Stjórnarmaður í Blóðgjafafélagi Íslands