Þátttakendur voru á aldrinum 0 til19 ára, en lang flestir voru 0 til 2 ára eða 37,7%. Drengir voru heldur fleiri en stúlkur eða 53,5%.
Þessi aldurs og kynjaskipting endurspeglar komur á Barnaspítala Hringsins á könnunartímabilinu en samkvæmt sjúkraskrárkerfinu SÖGU
voru drengir á aldrinum 0-2 ára yfir 50% þeirra sem komu á bráðamóttöku barna.
Niðurstöður voru þegar á heildina er litið mjög góðar, þ.e. almennt töldu yfir 90% þátttakenda þjónustu sviðsins mjög góða eða framúrskarandi. Mat á þáttum eins og framkomu/viðmóti, hjálpsemi, verkjameðferð, faglegri færni, aðstöðu og búnaði var almennt framúrskarandi. Nokkrir þættir þarfnast þó úrbóta að mati þátttakenda, þó mismikið eftir deildum. Sérstaklega áberandi var álit á fæði en 26 – 53% þátttakenda, mismunandi eftir deildum, töldu úrbóta þörf á matnum.
Mat 16 - 43% þátttakenda var að tækifæri til að ræða við lækni í einrúmi skorti og sömuleiðis voru 10 - 21% sem töldu skort á tækifærum til að ræða við hjúkrunarfræðing í einrúmi. Mat þátttakenda á skjótleika í þjónustu lækna var misjafnt eftir deildum en 32% þátttakenda á bráðamóttöku barna töldu að þar væri þörf á úrbótum. Á öðrum deildum töldu 8 - 24% þátttakenda að úrbóta væri þörf á þessum þætti í þjónustu lækna. Hvað varðar hjúkrunarfræðinga töldu tæp 20% þátttakenda á bráðamóttöku barna að úrbóta væri þörf á skjótleika í þjónustu þeirra. Mat þátttakenda á skjótleika í þjónustu hjúkrunarfræðinga á öðrum deildum var betra, eingöngu 2 -15 % töldu þörf á úrbótum.
Almennt töldu þátttakendur á öllum deildum Barnaspítala Hringsins að úrbóta væri þörf á upplýsingagjöf og fræðslu, bæði almennt um rannsóknir, niðurstöður og meðferð og sérstaklega varðandi upplýsingar/fræðslu frá læknum og hjúkrunarfræðingum. Einnig þegar spurt var sérstaklega um upplýsingar við móttöku/innritun og upplýsingar tengdum heimferð töldu þátttakendur á öllum deildum að úrbóta væri þörf.
Niðurstöður könnunarinnar eru í samræmi við eldri innlendar kannanir og sambærilegar erlendar rannsóknir. Algengar eru athugasemdir við skjótleika afgreiðslunnar, ásamt athugasemdum sem tengjast fæði og upplýsingum um fræðslu.
Könnunin bauð upp á að þátttakendur skrifuðu athugasemdir eða ábendingar. Sérstaklega áberandi var hve margir tjáðu sig um bílastæðismál. "Vantar bílastæði". "Virðist ekki gert ráð fyrir að sjúklingar eða aðstandendur komi á einkabílum". "Bílastæðamál eru mjög léleg. Tekur allt að 20 mínútur að finna stæði og þá á maður eftir að koma sér inn til læknis sem getur verið langur göngutúr og verið erfitt ef um börn í hjólastól/hækjum eða annað er að ræða". Einnig tjáðu nokkuð margir sig um þætti eins og "Afskipti fremur lítil. Ábyrgð mikil á foreldrum varðandi líðan barns." "Ekki tekið tillit til þess að foreldri á oft erfitt með að komast frá barni sínu ....". "...Vaktin ekki næginlega mönnuð. Erfitt að reka deildina án foreldra.." Loks voru ábendingar um aðgengi að spítalanum að nóttu til..
Niðurstöður hafa verið kynntar öllu starfsfólki Barnaspítala Hringsins, ásamt því að vera kynntar fyrir framkvæmdastjórn LSH. Stjórnendur barnasviðs hafa mælst til þess að að hver deild sviðsins vinni með niðurstöðurnar, skoði hvað þátttakendur telja að vel sé gert og hvar tækifæri séu til úrbóta. Áætlanir eru uppi um að leggja könnunina fyrir aftur haustið 2006.