Friðrik Elías Sigtryggsson hefur á undanförnum árum styrkt Barnaspítala Hringsins af miklum myndarskap og líka verið iðinn við það á því ári sem brátt er á enda runnið. Stofnaður hefur verið Friðrikssjóður með framlögum Friðriks.
Þann 21. október 2005 hélt Friðrik upp á afmæli sitt með sama hætti og undanfarin ár. Hann mætti á Barnaspítala Hringsins með enn eitt framlagið í Friðrikssjóð. Þannig hefur Friðrik á undanförnum árum byggt upp sterkan styrktarsjóð við Barnaspítala Hringsins, sem komið hefur að góðum notum. Sem dæmi má nefna að í vor styrkti Friðrikssjóður námsstefnu um verki barna með sérstaka áherslu á verki nýbura og fyrirbura. Að tilstuðlan sjóðsins var unnt að bjóða hingað tveimur erlendum sérfræðingum sem fluttu erindi, þjálfuðu starfsfólk, héldu vinnubúðir og störfuðu í fáeina daga á Barnaspítala Hringsins. Heimsókn þessi og námsstefnan var afar gagnleg.
Umhyggja Friðriks Elíasar Sigtryggssonar fyrir Barnaspítala Hringsins og velferð veikra barna á Íslandi hefur skilað miklum árangri. Forsvarsmenn Barnaspítala Hringsins og starfsfólk allt er Friðriki ákaflega þakklátt fyrir þennan stuðning.
Myndir:
- Friðrik heimsótti sjúkling á Barnaspítala Hringsins ásamt Gylfa Óskarssyni lækni og sérfræðingi í hjartasjúkdómum barna og Rakel Jónsdóttur hjúkrunarfræðingi og gæðastjóra á Barnaspítala Hringsins en þau eru í fræðslunefnd spítalans.
- Ávísun frá Friðriki . Með gefandanum eru Rakel Jónsdóttir, Gylfi Óskarsson, sviðsstjórarnir Anna Ólafía Sigurðardóttir og Ásgeir Haraldsson og Ragnheiður Sigurðardóttir deildarstjóri á vökudeild.