"Stjórnarnefnd Landspítala - háskólasjúkrahúss samþykkti þann 11. nóvember 2001 að yfirmenn hjá sjúkrahúsinu yrðu í 100% starfshlutfalli og sinntu ekki öðrum störfum utan þess en kennslu á háskólastigi eða störfum við háskóla og setu í nefndum og ráðum á vegum opinberra aðila. Þessi ákvörðun átti við alla yfirmenn spítalans og miðaðist við árslok 2002. Skyldi ráðningum yfirmanna til sjúkrahússins hagað með þessum hætti nema í undantekningartilvikum þegar annað teldist henta sjúkrahúsinu.
Í febrúar 2002 var auglýst starf yfirlæknis æðaskurðlækningadeildar á LSH og tekið fram að um fullt starf væri að ræða. Samkvæmt kjarasamningi og fylgiskjölum hans sem gilti þegar gengið var frá ráðningu Stefáns E. Matthíassonar í yfirlæknisstöðuna gátu menn í fullu starfi yfirlæknis ekki stundað sjálfstæðan atvinnurekstur með því starfi.
Stefán E. Matthíasson var ráðinn í yfirlæknisstarfið frá og með 1. júlí 2002 á grundvelli auglýsingarinnar og ráðningarviðtals en í því kom skýrt fram að um yfirlækninn giltu svokölluð helgunarákvæði í kjarasamningi og fylgiskjölum hans sem þýddi að hann stundaði ekki jafnframt sjálfstæðan atvinnurekstur. Í starfslýsingu, sem Stefán undirritaði við ráðningu, er lýst skyldum yfirlæknisins og þar segir meðal annars: "Hann skal hafa frumkvæði að hagræðingu og skipulagningu þjónustunnar, ......" Í minnisblaði sem framkvæmdastjóri lækninga og Stefán undirrituðu samhliða starfslýsingunni er gerður fyrirvari um að hætti hann stofurekstri skuli aðstaða og starfsumhverfi til slíkrar starfsemi vera viðunandi innan veggja LSH. Af persónulegum ástæðum, einkum vegna fjárhagslegra skuldbindinga við eigin atvinnurekstur, var Stefáni hins vegar veittur óvenju langur aðlögunartími eða tæplega 2½ ár.
Þegar gengið var eftir efndum þeirra skilyrða sem ráðningin byggðist á hafði yfirlæknirinn engar ráðstafanir gert til þess að flytja þá starfsemi sem stofurekstri hans tilheyrði inn fyrir veggi spítalans og því var haldið fram að LSH hefði ekki staðið við yfirlýst áform um lagfæringar og breytingar á æðaskurðlækningadeild. Af hálfu LSH er hins vegar talið að miklar breytingar og lagfæringar sem gerðar hafa verið á aðstöðu til æðaskurðlækninga á spítalanum samrýmist í öllum meginatriðum áformum um aukna starfsemi. Engum sérfræðilæknum hefur verið neitað um aðstöðu á göngudeild og aðgengi að skurðstofu hefur verið meira en nægjanlegt fyrir lækna þessarar deildar. Lítil nýting skurðstofu deildarinnar hefur því leitt til þess að öðrum deildum hefur verið úthlutað aðgengi að henni sem nemur 1½ degi á viku. Biðlistar á deildinni eru engir.
Yfirlæknar taka laun samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra annars vegar og Læknafélags Íslands hins vegar og þeir sérfræðilæknar sem eingöngu vinna við sjúkrahúsið, þ.m.t. yfirlæknar, fá sérstaka viðbót greidda. Aðrir, þ.e. þeir sem eru með stofurekstur, eiga aðeins kost á 80% starfshlutfalli að hámarki. Auk hinna föstu launa koma greiðslur vegna vakta. Þetta á við alla vinnu innan spítalans þ.m.t. göngudeildarvinnu. Sérstök 5% viðbót getur komið til vegna verka sem spítalinn leggur sérstaka áherslu á, t.d. umtalsverða göngudeildarvinnu.
Hins vegar hefur launakerfi spítalans ekki verið breytt í þá veru að jafna megi við það kerfi sem sjálfstætt starfandi sérfræðilæknar búa við og enginn ádráttur verið gefinn þar um.
Sú ákvörðun Landspítala - háskólasjúkrahúss að skylda yfirmenn spítalans til að gegna störfum eingöngu við sjúkrahúsið byggir á 20. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins:
"Áður en starfsmaður hyggst, samhliða starfi sínu, taka við launuðu starfi í þjónustu annars aðila, ganga í stjórn atvinnufyrirtækis eða stofna til atvinnurekstrar ber honum að skýra því stjórnvaldi, er veitti starfið, frá því. Innan tveggja vikna skal starfsmanni skýrt frá því ef áðurnefnd starfsemi telst ósamrýmanleg starfi hans og honum bannað að hafa hana með höndum." Jafnframt segir: "Rétt er að banna starfsmanni slíka starfsemi sem í 1. mgr. segir ef það er síðar leitt í ljós að hún megi ekki saman fara starfi hans í þjónustu ríkisins."
Samkvæmt þessu hefur LSH fulla heimild til þess að meta og skera úr um hvort starfsemi yfirmanns fari saman við starf hans á spítalanum.
Með tölvubréfi 9. febrúar 2005, rúmum mánuði eftir að tilskilinn frestur til lokunar stofu Stefáns var liðinn, var kallað eftir staðfestingu þess að því ákvæði ráðningarsamningsins hefði verið fullnægt. Því bréfi var fylgt eftir með þremur fundum Stefáns og framkvæmdastjóra lækninga án þess að niðurstaða eða sameiginlegur skilningur næðist. Með bréfi, dags. 31. maí 2005, var Stefáni veittur frestur til eins mánaðar til að ákveða hvort hann vildi sinna 100% starfi yfirlæknis á æðaskurðlækningadeild og loka stofu sinni til samræmis við stefnu og kröfur LSH. Því bréfi er svarað þann 7. júní sl. þar sem fram kemur að Stefáni sé ljós sá almenni vilji yfirstjórnar LSH að yfirlæknar á spítalanum sinni ekki læknastofurekstri utan stofnunarinnar en vísað hins vegar til forsendna í minnisblaði frá 16. júlí 2002, sem áður hefur verið vísað til, og talið að LSH hafi ekki uppfyllt að öllu leyti. Þess vegna séu ekki skynsamleg rök til þess að væna hann um vanefndir á því sama ákvæði. Með bréfi 15. júní sl. er af spítalans hálfu áréttað að afstaða stjórnar og réttarstaða LSH í málinu hafi verið skýrð skilmerkilega og að LSH fallist ekki á að Stefán eigi rétt á sérákvæðum í ráðningarkjörum yfirlæknis á grundvelli títtnefnds minnisblaðs.
Þann 5. september sl. var Stefáni ritað bréf þar sem tilkynnt var um áform sjúkrahússins að honum yrði veitt áminning fyrir það að hlýðnast ekki kröfu sjúkrahússins um að láta af starfrækslu sjálfstæðrar lækningastofu samhliða starfi yfirlæknis á Landspítala - háskólasjúkrahúsi. Var honum veitt færi á að koma að athugasemdum og andmælum og var sá frestur framlengdur að ósk lögfræðings Stefáns. Þann 31. október var Stefáni veitt áminning á sömu forsendum og boðað hafði verið og honum veitt færi á að bæta ráð sitt. Þess var krafist að lögð yrði fram skrifleg staðfesting á uppsögn samnings við Tryggingastofnun ríkisins innan 10 daga. Þann 21. nóvember var með bréfi boðuð áformuð uppsögn og enn gefið tækifæri til að koma að athugasemdum og andmælum innan 4 daga og að síðustu var Stefáni sagt upp störfum með bréfi þann 28. nóvember 2005 á grundvelli undanfarandi áminningar. Að síðustu var með bréfi þann 7. desember staðfest að Landspítali - háskólasjúkrahús hefði ákveðið að falla nú þegar frá kröfu um vinnuframlag á uppsagnarfresti.
Yfirlæknar á Landspítala - háskólasjúkrahúsi stýra sérgreinum og hafa þannig ríkum skyldum að gegna í samskiptum við annað starfsfólk og sjúklinga. Það er ótvíræð afstaða yfirstjórnar LSH að þessum mikilvægum stjórnunarstörfum verði ekki gegnt með fullnægjandi hætti nema því aðeins að vera í fullu starfi á spítalanum."
(Sent fjölmiðlum 8. desember 2005 vegna umfjöllunar í þeim um uppsögnina yfirlæknis æðaskurðlækningadeildar)