Starfsfólk taugalækningadeildar B-2 á Landspítala Fossvogi og fulltrúar félaga taugasjúklinga
héldu framfarahátíð þriðjudaginn 20. desember 2005 til þess að fagna þrennu,
þ.e. viðbótarhúsnæði fyrir deildina, gjöfum til hennar og yfirlýsingu um skipulegt samstarf Landspítala - háskólasjúkrahúss og félaga taugasjúklinga.
Húsnæðið aukið
Dagdeild taugalækningadeildar hefur tekið í notkun stærra og betra húsnæði á deild A-2 í Fossvogi. Þar verður rými fyrir 6 sjúklinga í ýmiss konar meðferð. Einnig hafa hjúkrunarfræðingar deildarinnar viðtalsherbergi til afnota á sama gangi.
Dagdeildin verður opin frá kl 08:00 - 16:00 alla virka daga.
Göngudeild hjúkrunar fyrir taugasjúklinga verður áfram í gamla húsnæði dagdeildarinnar, þ.e. fyrir framan deild B-2. Göngudeildin verður opin frá kl 11:00 - 14:00 alla virka daga.Á dag- og göngudeildinni verða tveir hjúkrunarfræðingar í fullu starfi eins og áður.
Mikil endurskipulagning hefur átt sér stað innan bæði legudeildar og dag- og göngudeildar með það
að markmiði að þjóna taugasjúklingum enn markvissar og betur og til að stytta legutíma á legudeildinni.
Sérstaka beiðni þarf frá taugalækni til að njóta þjónustu hjúkrunarfræðinga dagdeildarinnar.
Samstarf við sjúklingasamtök
Fulltrúar Landspítala - háskólasjúkrahúss og félaga taugasjúklinga undirrituðu í dag yfirlýsingu um
skipulegt samstarf sín í milli um mál sem varða skjólstæðinga félaganna og tengjast spítalanum.
Um er að ræða MND félag Íslands, MG-félag Íslands, MS-félag Íslands, Heilaheill,
Lauf - landssamtök áhugamanna um flogaveiki og Parkinsonsamtökin á Íslandi.
Gert er ráð fyrir samstarfi varðandi fræðslu til almennings og sjúklinga og reglulegum samráðsfundum stjórnenda og starfsmanna LSH annars vegar og fulltrúa félaganna hins vegar.
Stjórnendur LSH hyggjast á komandi ári efla samstarf við samtök sjúklinga og er þetta fyrsti samningur af því tagi sem gerður er.
Gjafir
Fjögur félög taugasjúklinga, Heilaheill, Parkinsonsamtökin á Íslandi, MG félag Íslands og MND félag Íslands færðu taugalækningadeild B-2 í Fossvogi gjafir á framfarahátíðinni að verðmæti 1,3 milljónir króna:
2 Ivac vökvadælur1 sérútbúið borð fyrir hjúkrunarvörur og til lyfjagjafa
1 lífsmarkamælir af gerðinni ProCare 400
2 Lazyboy stólar fyrir nýtt hvíldar- og slökunarherbergi á taugalækningadeild B-2