Blóðbankinn tekur hinn 15. febrúar 2006, kl. 9:00, upp nýjan hátt fyrir samræmingarpróf vegna blóðinngjafa, BAS próf (tölvukrosspróf), sem í flestum tilvikum kemur í stað fyrri samræmingarprófa. Til þessa hafa samræmingarpróf innifalið BKS próf og krosspróf á öllum rauðkornaeiningum fyrir blóðgjöf. Eftir innleiðingu BAS prófsins mun BKS og krosspróf einungis verða gert hjá sjúklingum sem ekki uppfylla skilyrði BAS prófs.
Jafnframt innleiðingu BAS prófsins verður tekin í notkun ný beiðni fyrir blóðpantanir og rannsóknir í Blóðbankanum. Einnig er rétt að minna á nauðsyn þess að beiðnir og sýnaglös séu rétt og nákvæmlega merkt og að persónuvottun sé ávallt gerð af þeim starfsmanni sem tekur blóðsýnið.
BAS próf - Blóðflokkaathugun og skimun
BAS próf samanstendur af blóðflokkun (ABO/D) og skimun fyrir blóðflokkamótefnum. Niðurstöður BAS prófsins eru bornar saman við eldri niðurstöður sjúklingsins. Ef niðurstöður blóðflokkunarinnar eru í samræmi við fyrri niðurstöður og engin blóðflokkamótefni greinast eða hafa áður greinst má taka frá rauðkornaþykkni í sjúklinginn án þess að gera BKS og krosspróf eins og áður tíðkaðist. Hver rauðkornaeining er tekin frá í 2 sólarhringa. Til að gera megi BAS próf (BAS próf teljist vera virkt) og taka megi frá blóð þarf eftirfarandi skilyrðum að vera fullnægt :
1) Sjúklingur þarf að vera blóðflokkaður (ABO/D) í Blóðbankanum eftir apríl 1994 og samræmi þarf að vera milli nýju flokkunarinnar og eldri flokkunar.
2) Sjúklingur má aldrei hafa greinst með blóðflokkamótefni.
3) Sjúklingur má ekki vera jákvæður í beinu Coombsprófi (DAT).
4) Sjúklingur má ekki hafa fengið líffæraígræðslu síðastliðna 3 mánuði.
Gildistími BAS prófs er 3 sólarhringar eftir sýnatöku. Meðan BAS prófið er í gildi er hægt að panta rauðkornaþykkni og gefa það án þess að gera krosspróf. Hver eining rauðkornaþykknis er tekin frá í tvo sólarhringa.
- BAS prófið getur þýtt styttri afgreiðslutíma á rauðkornaþykknum frá Blóðbankanum, sérstaklega ef sjúklingur þarf margar einingar á skömmum tíma.
Framlengt BAS próf
Hægt er að óska eftir framlengingu á BAS prófi ef fyrirsjáanlegt er að sjúklingur þurfi á rauðkornaþykkni að halda eftir að venjulegur gildistími BAS prófs rennur út (3 sólarhringar frá sýnatöku). Framlenging á BAS prófi getur verið sérstaklega heppileg fyrir sjúklinga sem fara í valaðgerðir. Gildistími framlengds BAS prófs er allt að 7 sólarhringar til viðbótar hinum upprunalegu 3 sólarhringum venjulegs BAS prófs. Hægt er að panta rauðkornaþykkni í sjúklinginn hvenær sem er meðan á gildistíma framlengda BAS prófsins stendur. Um leið og fyrsta frátaka á rauðkornaþykkni er gerð styttist gildistími BAS prófsins niður í 3 sólarhringa frá fyrstu frátöku.
- Einungis læknir sjúklings getur óskað eftir framlengingu á BAS prófi og skal hann ávallt undirrita beiðnina. Með undirritun sinni tryggir læknirinn að sjúklingurinn muni ekki fá blóð fram að fyrirhugaðri blóðgjöf.
- Ekki er hægt að framlengja BAS próf fyrir barnshafandi konur eða sjúklinga sem hafa fengið blóðinngjafir undanfarna 3 mánuði.
Allar nánari upplýsingar um BAS prófið verða veittar af starfsmönnum Blóðbankans í síma 543 5511 dagana 6. - 10. febrúar og 13. - 17. febrúar 2006, kl. 10:00 - 12:00.
Sjá einnig upplýsingar um BAS prófið í handbók Blóðbankans á www.blodbankinn.is.
Þær deildir sem óska eftir nánari kynningu á BAS prófinu geta beðið um kynningarfund þar sem farið verður í gegnum BAS prófið.