Notendahópar vegna nýs spítala - 2. maí 2006
(Ath. Listinn í skjalinu er uppfærður þegar breytingar verða á honum)
Fjörutíu og fjórir notendahópar tæplega 300 starfsmanna taka næstu mánuði þátt í þarfagreiningu vegna hönnunar nýs Landspítala - háskólasjúkrahúss. Hlutverk þeirra er að taka saman nákvæmt yfirlit yfir starfsemina sem fram á að fara á hinum nýja spítala og hvernig þeirri starfsemi verði best fyrir komið.
Hlutverkið felst einnig í að meta tengsl deilda og stofnana en gert er ráð fyrir því að öll starfsemi sjúkrahússins, heilbrigðisvísindadeilda Háskóla Íslands og rannsóknastöðvarinnar á Keldum verði við Hringbraut.
Samtök sjúklinga verða höfð með í ráðum í þessu verkefni.
Þessi undirbúningsvinna fyrir hönnun nýs Landspítala - háskólasjúkrahúss hófst formlega með fundi framkvæmdanefndar nýbyggingar Landspítala með þeim starfsmönnum LSH og Háskóla Íslands sem hafa tekið sæti í vinnuhópunum og ráðgjöfum sem ráðnir hafa verið til að sinna tilteknum verkefnum. Á fundinum undirritaði Jón Kristjánsson heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og fulltrúi danska fyrirtækisins Arkitektfirmaet C.F. Møller samkomulag um gerð deiliskipulagstillögu.
Samningurinn um tillögu að deiliskipulagi og vinna við það nær til lóðar Landspítala - háskólasjúkrahúss en hún markast af Eiríksgötu, Barónsstíg og nýju Hringbrautinni vestur að Njarðargötu.
Leyfilegt heildarbyggingarmagn er rúmlega 170 þúsund fermetrar. Um er að ræða hefðbundið og lögbundið skipulagsferli sem felur í sér samráð og samvinnu við skipulagsyfirvöld í Reykjavík og samráð og kynningu gagnvart íbúum.
Unnið verður í nánu samstarfi við ráðgjafa frá C.F. Møller, höfunda vinningstillögu vegna skipulags á lóð Landspítala, en þessum þætti undirbúningsins á að ljúka 30. júní 2006.
Vinnuhóparnir fá 6. febrúar sendar upplýsingar um fundartíma og gögn til undirbúnings.
Ráðgerðir eru 3 fundir með hverjum hópi og hefjast fyrstu fundirnir um miðjan febrúar.
Við allan undirbúning er við það miðað að framkvæmdir geti hafist eftir tvö ár. Þegar þarfagreiningu lýkur hefst endurskoðun vinningstillögunar og byggist hún á þarfagreiningunni. Það munu á næstu mánuðum starfa 6 - 8 ráðgjafar, sérfræðingar í starfsemi sjúkrahúsa og háskólastarfsemi, við að setja fram þarfir nýs spítala miðað við árið 2025. Arkitektarnir sem ráðnir hafa verið sem ráðgjafar framkvæmdanefndarinnar hafa víðtæka reynslu á sviði hönnunar og við að reisa sjúkrahús og skyldar byggingar.
Má í því sambandi benda á að þeir hönnuðu Akershus sjúkrahúsið í Osló og eru að vinna við byggingu barnaspítala í Álasundi og rannsóknarbyggingu við háskólasjúkrahúsið í Björgvin.
Í framkvæmdanefndinni um byggingu nýs spítala eru Alfreð Þorsteinsson borgarfulltrúi, formaður, Inga Jóna Þórðardóttir viðskiptafræðingur, varaformaður, Kristín Ingólfsdóttir rektor, Ragnheiður Haraldsdóttir skrifstofustjóri, Árni Gunnarsson framkvæmdastjóri, Magnús Pétursson forstjóri og Björn Ingi Sveinsson, verkfræðingur.
Verkefnisstjóri er Ingólfur Þórisson.
Nánar um næsta áfanga í notendavinnu við nýjan spítala:
Starfsmenn Landspítala - háskólasjúkrahúss hafa á undanförnum árum lagt mikið til í allri notendavinnu við undirbúning að nýjum spítala LSH.
Í lok árs 2004 skilaði stýrinefnd notendavinnu skýrslu sem gefur heildstæða mynda af umfangi og fyrirkomulagi á starfsemi LSH fyrir árið 2004
og spá fyrir um þróun starfseminnar til ársins 2025. Skýrsla þessi var grunnurinn að skipulagssamkeppni um uppbyggingu við Hringbraut
sem lauk með niðurstöðu dómnefndar í október 2005.
Höfundur vinningstillögu er danska arkitektafyrirtækið C.F.Möller auk samstarfsaðila.
Í samráði við „Framkvæmdarnefnd um nýjan spítala“ hefur LSH unnið að skipulagi á næsta áfanga í vinnu notenda við verkefnið.
Í vinnu notenda skal gengið út frá umfangi og fyrirkomulagi á starfsemi eins og fram kemur í „Skýrslu stýrihóps notendavinnu“ frá 2004.
Notendavinnu hefur verið skipt upp í 44 vinnuhópa, sbr. skjal efst á síðunni, og byggist sú skipting m.a. á sérgreinum og öðrum þáttum sem ganga þvert á starfsemina. Sérstakur vinnuhópur mun fjalla um allar sómatískar legudeildir og því munu vinnuhópar sérgreina
taka fyrir þann þátt í starfseminni sem snýr að annarri meðferð og aðstöðuþörf.
Verkefni vinnhópa í ár er að vinna að ákveðnum þáttum í gerð frumáætlunar fyrir verkefnið og þá í miklu samstarfi við hina erlendu ráðgjafa.
Fyrsti þátturinn sem unnið verður að er þarfagreining eininga, sem innifelur m.a. eftirfarandi atriði:
-Lýsing á starfsemi eininga
-Stærðarákvarðandi forsendur (sjúklingar og starfsmenn)
-Kröfur um nálægð við aðrar sérgreinar og sértækar lausnir
-Tengsl við aðrar sérgreinar
-Sérstakar kröfur til bygginga og tækni
-Herbergjalýsing, þ.e. starfsemi, stærð og fjöldi
Erlendu ráðgjafarnir munu stýra nokkuð þeirri vinnu sem fer fram og ráðgera þeir að haldnir verði þrír fundir með hverjum notendahópi á tímabilinu febrúar – júní. Þá munu ráðgjafarnir draga saman þær talnalegu upplýsingar sem liggja fyrir um starfsemina svo og þær forsendur er fram koma í „Skýrslu stýrinefndar notendavinnu“ frá 2004.
Við alla skipulagsvinnu skal hafa það að markmiði að gæði þjónustunnar verði sem mest, að biðtímar sjúklinga innan spítalans verði sem stystir og að starfsemin verði að öllu leyti sem skilvirkust. Leggja skal mat á fyrirkomulag og afkastagetu einstakra eininga þannig að starfsemin verði samstillt og að forðast megi „flöskuhálsa“. Þá skal hver vinnuhópur huga að öllum þeim þáttum sem rúmast þurfa innan háskólasjúkrahúss sem snýr að rannsóknum og kennslu heilbrigðisdeilda.
Vinna notenda í þessum áfanga verður nýtt í endurskoðun á þeim skipulagstillögum sem nú liggja fyrir ásamt kostnaðarmati fyrir verkefnið. Gert er ráð fyrir að í árslok liggi fyrir endurskoðun á fyrirliggjandi teikningum m.t.t. krafna um staðsetningu eininga/deilda, stærð þeirra, flæði sjúklinga o.fl. Í byrjun næsta árs verður tekin frekari afstaða til verkefnisins og áfangaskiptingu framkvæmda. Mun þá að nýju hefjast ítarlegri vinna með notendum um skipulag þess húsnæðis.
Vinna notenda getur orðið nokkuð mismunandi, allt eftir verkefnum hópa og hvað fyrir liggur af upplýsingum um starfsemina.