Skilunardeild Landspítala - háskólasjúkrahúss flutti í byrjun desember 2005 í nýtt húsnæði sem hafði verið endurnýjað með tilliti til þeirrar þjónustu sem hún veitir. Húsnæðið dugar næstu árin þótt einstaklingum sem þurfa á skilunarmeðferð að halda fjölgi. Formleg opnun fór fram 24. janúar 2006 þar sem var fjölda gesta og voru deildinni færðar góðar gjafir við það tækifæri. Félag nýrnasjúkra gaf fjóra meðferðarstóla fyrir sjúklinga. Oddfellow stúkan Þorgerður gaf tíu sjónvarpsskjái. IcePharma gaf klakavél. Magnús Pétursson forstjóri færði deildinni mynd sem tekin var við fyrstu blóðskilunina árið 1968.
Skilunardeild LSH er eina skilunardeild landsins og sinnir öllum einstaklingum með langvarandi eða tímabundna nýrnabilun. Er þar um að ræða blóðskilun (hemodialysis) og kviðskilun (peritoneal dialysis). Einnig sinnir deildin blóðvatnsskiptum.
Þegar einstaklingur er kominn í lokastigs nýrnabilun þarf hann að velja á milli skilunarmeðferða ef hann á ekki möguleika á að fá ígrætt nýra, blóð- eða kviðskilun.
Einstaklingar sem velja að fara í blóðskilun koma í meðferð á deildina þrisvar í viku, allar vikur ársins og sama hvað dagur er. Hver meðferð tekur 4 - 5 klst. að viðbættum þeim tíma sem fer í ferðir til og frá deildinni. Fólk sem býr út á landi verður því að koma til Reykjavíkur þrisvar í viku til að fá sína meðferð. Þeir sem velja að fara í kviðskilun sjá um meðferðina sjálfir heima hjá sér eftir að hafa fengið þjálfun hjá hjúkrunarfræðingum deildarinnar. Þeir koma síðan með 4 - 8 vikna millibili í eftirlit á deildina og hitta þá lækni, hjúkrunarfræðing og aðra fagaðila eftir þörfum. Þeir geta líka alltaf leita símleiðis til hjúkrunarfræðings á deildinni ef upp koma vandamál með kviðskilunina.
Á skilunardeildinni starfa fimmtán hjúkrunarfræðingar og einn sjúkraliði, ritari og starfsmaður. Fimm nýrnasérfræðingar eru við deildina. Næringarfræðingur og félagsráðgjafi sinna líka skjólstæðingum deildarinnar mikið. Deildarstjóri er Hildur Einarsdóttir.
Myndir:
Magnús Pétursson forstjóri LSH á ræðupalli í mannfjöldanum (mynd fyrir ofan)
Runólfur Pálsson yfirlæknir nýrnalækninga á ræðupalli.
Páll Ásmundsson fyrrv. yfirlæknir nýrnalækninga á ræðupalli.
Auður Pétursdóttir frá Oddfellow stúkunni Þorgerði afhenti gjöf.
Nýir og þægilegir stólar sem voru gefnir koma sjúklingum vel.
Myndin frá fyrstu blóðskiluninni vakti kátínu. Hér er Guðmundur Þorgeirsson sviðsstjóri lækninga á lyflækningasviði I að sýna hana þeim Páli Ásmundssyni og Sigrúnu Sigurðardóttur eiginkonu hans.