Morgunblaðið birti í janúar og febrúar 2006 eftirtaldar fimm greinar um Landspítala - háskólasjúkrahús
sem tengjast fyrirhugaðri byggingu nýs spítala við Hringbraut:
Jóhannes M. Gunnarsson framkvæmdastjóri lækninga á LSH
Sameining sjúkrahúsanna var forsenda framfara
Kristján Erlendsson læknir, framkvæmdastjóri kennslu, vísinda og þróunar á LSH
og varadeildarforseti læknadeildar HÍ
Sameiningin eflir kennslu, vísindi og rannsóknir
Anna Stefánsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar á LSH
Betri aðbúnaður í nýju sjúkrahúsi
Torfi Magnússon læknir, ráðgjafi forstjóra LSH
Betri árangur með nýjum sjúkrahúsbyggingum
Morgunblaðið 1. febrúar 2006
Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands (HÍ)
Magnús Pétursson forstjóri Landspítala - háskólasjúkrahúss (LSH)
Vandlega valinn staður fyrir nýja háskólasjúkrahúsið
Bygging nýja háskólasjúkrahússins sem er að hefjast verður mesta framfaramál í íslenskri heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisvísindum á Íslandi um langa hríð.
Staðsetningin var ákveðin eftir vandaða undirbúningsvinnu með þarfir sjúklinga í huga,
þarfir samfélagsins fyrir auknar rannsóknir í heilbrigðisvísindum í tengslum við landssjúkrahúsið og vilja og þarfir borgarinnar.
Aðdragandi nýbyggingarinnar hefur verið langur, mjög vel skipulagður og fjölmargir hafa þar átt hlut að máli.
Þjóðinni er nauðsynlegt að fá nýtt landssjúkrahús sem stenst nútímakröfur og þær samfélagsbreytingar sem orðið hafa og framundan eru.
Með bættum efnahag og framförum í lækningum og meðferð aukast kröfur skjólstæðinga og aðstandenda um bætta þjónustu.
Kröfur aukast líka um að efla menntun, kennslu, vísindi og rannsóknir í tengslum við heilbrigðisþjónustuna.
Umönnun sjúkra fleygir fram, sérhæfing vex og leitast er við að samþætta þjónustu við sjúka og menntun verðandi heilbrigðisstarfsmanna.
Allt ber þetta að sama brunni: Það er skynsamlegt að veita flóknustu heilbrigðisþjónustu, þar sem jafnframt fer fram kennsla og þjálfun heilbrigðisstétta og mikil vísindastarfsemi, á einum stað.
Í því felst ótvíræð hagkvæmni og betri árangur.
Lang flestir eru þeirrar skoðunar.
Uppbygging spítala við Hringbraut á sér langa forsögu.
Árið 1969 gerðu borgaryfirvöld og ríkið samkomulag um að byggja upp Ríkisspítala og læknadeild Háskóla Íslands.
Á grundvelli þess samkomulags var "læknagarður " reistur á Hringbrautarlóð fyrir læknadeild og tannlæknadeild HÍ.
Samkomulagið fól jafnframt í sér flutning Hringbrautar á núverandi stað enda talið þá, eins og nú, að hægt væri að byggja sjúkrahúsið upp á svæðinu.
Í áranna rás hafa menn aldrei horfið frá þessari ákvörðun, né hún verið felld úr gildi.
Í ársbyrjun 2000 var ákveðið að sameina sjúkrahúsin í Reykjavík og farið að huga að staðarvali fyrir nýtt sjúkrahús
enda almenn samstaða um það að núverandi sjúkrahúsbyggingar væru ófullnægjandi til framtíðar,
rekstur á mörgum stöðum yrði óhagkvæmur og að efla þyrfti Landspítala sem vettvang kennslu og vísinda.
Í janúar 2002 skilaði áliti nefnd sem falið var að velja nýju sjúkrahúsi stað. Hún leitaði víða fanga og skoðana.
Starfsmenn spítalans lögðu fram sitt álit, starfsmenn háskólans einnig.
Reykjavíkurborg hafði líka mikið um að segja og taldi það hagsmuni borgarinnar að spítalinn risi nærri miðju hennar og í góðum tengslum við Háskóla Íslands.
Erlendir aðilar gáfu einnig góð ráð. Málið var kynnt almenningi í fjölmiðlum við undirbúning staðarvalsins og þegar það lá fyrir.
Að vel athuguðu máli var ákveðið að nýja sjúkrahúsið risi við Hringbraut, ekki síst vegna nálægðar við háskólann og miðborgina.
Aðrir kostir voru grandskoðaðir, einkum Fossvogur og Vífilsstaðir, en þóttu af ýmsum ástæðum ekki eins fýsilegir.
Staðsetning spítalans við Hringbraut gefur til dæmis ómetanlegt tækifæri til að efla menntun og rannsóknir á heilbrigðissviði með Háskóla Íslands.
Á sama hátt gefur uppbygging sjúkrahússins háskólanum færi á að færa ýmsa heilbrigðistengda rannsóknarstarfsemi á hans vegum nær sínum höfuðstöðvum og nær spítalanum, t.d. rannsóknarstarfsemina á Keldum.
Nábýli sjúkrahússins og rannsóknarstofa háskólans eflir og hvetur báða aðila til sóknar.
Núverandi byggingar Landspítala við Hringbraut eru um 70.000 fermetrar.
Í þeim eru fólgin veruleg verðmæti sem nýtast áfram við uppbygginguna þar, t.d. barnaspítalinn og geðdeildabyggingin.
Þetta gefur færi á að byggja spítalann upp í viðráðanlegum áföngum.
Að staðarvali ákveðnu hafa staðið yfir samningar við Reykjavíkurborg um Hringbrautarlóðina og tilhögun bygginga þar.
Einnig var efnt til samkeppni um nýtingu lóðarinnar.
Þetta hefur verið gert fyrir opnum tjöldum og yfirvöld lands og borgar ávallt tekið fullan þátt í því að leiða fram niðurstöðu.
Almenningur hefur átt þess kost að fylgjast með framvindunni í fjölmiðlum.
Í dag, 1. febrúar, er boðað til fundar með um 250 - 300 starfsmönnum Landspítala - háskólasjúkrahúss og Háskóla Íslands sem hafa tekið sæti í starfsnefndum sem á næstu mánuðum vinna með ráðgjöfunum sem sigruðu í skipulagssamkeppninni um Hringbrautarlóð.
Þannig er rík áhersla lögð á það að sem flestir móti nýjan spítala svo hann verði sem allra best úr garði gerður, bæði að innri gerð og byggingarnar sjálfar.
Málið varðar samt ekki aðeins starfsmenn spítalans og háskólans heldur alla landsmenn.
Í dag verður jafnframt skrifað undir samninga við ráðgjafana um þá undirbúningsvinnu sem í hönd fer og standa mun sleitulaust þar til framkvæmdir hefjast undir mitt ár 2008.
Opinberri umræðu um nýja spítalann ber að fagna og ekki verður annað séð en að góð sátt ríki um það mikla verkefni sem staðið hefur yfir og framundan er.
Margra ára markviss undirbúningsvinna skilar sér brátt í bættri þjónustu við sjúklinga og nemendur öllum landsmönnum til heilla.
Markmiðið er að byggja hér áfram upp heilbrigðisþjónustu og þekkingu í fremstu röð.