Aðalfundur Blóðgjafafélags Íslands verður haldinn fimmtudaginn 23. febrúar 2006. Fram fara venjuleg aðalfundarstörf, fræðsluerindi verður flutt og blóðgjafar er náð hafa ákveðnu takmarki verða heiðraðir. Um er að ræða þá sem náð hafa því að gefa 50, 75, 100 og 125 blóðgjafir. Þar er um raunverulegar hversdagshetjur að ræða, sem mæta reglulega og gefa af sjálfum sér þá gjöf sem getur orðið öðrum til lífs. Að eiga ávallt nægilegt framboð blóðs er ekki sjálfgefið. Hollt er að minnast þess að víða um heim gengur illa að tryggja nægt framboð þess.
Fundurinn hefst kl. 20:00 og er öllum opinn. Blóðgjafar eru sérstaklega hvattir til að mæta, einkum þeir sem náð hafa ofangreindum áfanga, fylgjast með störfum aðalfundar og njóta veitinga í boði LSH.
Blóðgjafafélag Ísland var stofnað 16. júlí 1981 og er opið öllum sem gefa blóð og öðrum er láta sig félagið varða. Tilgangur þess er að fræða blóðgjafa, almenning og stjórnvöld um mikilvægi blóðs til lækninga, blóðsöfnun, starfsemi blóðbanka og notkun blóðs á sjúkrahúsum hérlendis og erlendis. Ólafur Jensson þáverandi forstöðumaður Blóðbankans var frumkvöðull að stofnun BGFÍ. Sveinn Guðmundsson tók við sem yfirlæknir 1995.
Árið 2003 var samþykkt á aðalfundi að blóðgjafar sem áhuga höfðu á að ganga í félagið yrðu að skrá sig í það formlega en fram til þessa höfðu allir blóðgjafar verið taldir félagar í blóðgjafafélaginu. Skráðir félagar eru nærri 3000 og stjórnarmenn 7. Hlutverk stjórnar er að kynna félagið og stuðla að fjölgun félagamanna, gæta hagsmuna þeirra og fræða heilbrigðisyfirvöld um þýðingu og mikilvægi þess að eiga ávallt traustan hóp blóðgjafa að. Einnig lætur hún sér annt um að bæta úr húsnæðismálum Blóðbankans.
Í upphafi átti Blóðgjafafélagið fastan tekjustofn sem í runnu tekjur af útflutningi plasma úr blóði sem ekki var lengur nýtilegt til lækninga. Þessi útflutningur lagðist af árið 1985 og hefur félagið verið tekjulaust síðan. Alþingi hefur hins vegar stutt félagið með fé af fjárlögum og ber að þakka því og Fjárlaganefnd þess þann góða stuðning.
Reglum Evrópusambandsins varðandi blóðgjöf fjölgar stöðugt. Því á BGFÍ mikið erindi við almenning og stjórnvöld. Til að anna þörf fyrir blóðhluta eru 16 þúsund blóðgjafir á ári í Blóðbankanum lágmark. Því sinna 8000 - 9000 blóðgjafar. Hópur blóðgjafa eldist. Nýliðun, þótt nokkur sé, er ekki næg og vinna þarf ötullega að öflun nýrra blóðgjafa. Góður blóðgjafahópur er mikilvæg og traust undirstaða íslenzks heilbrigðiskerfis eins og við þekkjum það í dag.
Þess má til gamans geta að tveir sem nú verða heiðraðir hafa gefið blóð 125 sinnum og látið frá sér 112,5 lítra af blóði. Alls hafa blóðgjafarnir 124 sem fá viðurkenningu gefið rúmlega 3,3 tonn af blóði. Um það munar.
Ólafur Helgi Kjartansson er formaður Blóðgjafafélags Íslands og sýslumaður á Selfossi
Greinin birt í Morgunblaðinu 23. febrúar 2006