Frá sviðsstjórum á barnasviði og svæfinga-, gjörgæslu- og skurðstofusviði:
„Á undanförnum dögum hafa orðið nokkrar umræður um hugsanlega hágæsludeild á Barnaspítala Hringsins. Nokkurs misskilnings hefur gætt í umræðunni og því vilja undirritaðir stjórnendur á Landspítala - háskólasjúkrahúsi (LSH) koma eftirfarandi á framfæri.
Með hágæsludeild er átt við deild þar sem að jafnaði eru vistaðir mikið veikir sjúklingar sem þurfa meiri vöktun, umönnun og meðferð en venjulega er unnt að veita á almennri legudeild. Þar er þörf á sérhæfðum tækjabúnaði og meiri mönnun en á legudeildum og því er slík þjónusta kostnaðarsamari. Líta má á hágæsludeild sem millistig milli almennrar legudeildar og gjörgæsludeildar. Starfsfólk Barnaspítala Hringsins hefur haft áhuga á að koma á fót slíkri starfsemi og er húsnæði til staðar. Hágæslumeðferð er ekki aðeins bundin við ákveðið húsnæði heldur byggir fyrst og fremst á þjálfuðu starfsfólki og nauðsynlegum tækjabúnaði.
Á gjörgæsludeildum LSH eru vistaðir veikustu sjúklingar spítalans, jafnt börn sem fullorðnir. Þar er þörf fyrir stöðuga umönnun, tæknivædda vöktun, flóknar lyfjagjafir og meðferð með öndunarvélum, nýrnavélum og háþróuðum tæknibúnaði. Á gjörgæslu er þörf fyrir sérþjálfað starfsfólk og þéttustu mönnun hjúkrunarfræðinga og lækna.
Á Barnaspítala Hringsins er gjörgæsla þar sem fram fer sams konar meðferð fyrir nýbura og fyrirbura. Á bráðamóttöku barnaspítalans er fullkomin aðstaða til endurlífgunar barna og til að veita nauðsynlegustu neyðarhjálp. Sérlega góð samvinna hefur ríkt milli Barnaspítala Hringsins og gjörgæsludeilda LSH og eru innlagnir barna á gjörgæsludeild ávallt sameiginleg ákvörðun lækna deildanna.
Að jafnaði er það svo að þegar ástand sjúklings á legudeild versnar verulega veitir starfsfólk legudeildar fyrstu hjálp og kallar jafnframt til endurlífgunarteymi spítalans sé þess þörf. Það teymi hefur þegar í stað sérhæfða meðferð, til dæmis öndunaraðstoð og sér síðan um flutning sjúklings á gjörgæsludeild ef það á við. Þannig er hægt að tryggja öryggi í flutningi mikið veikra sjúklinga.
Það er sameiginlegt markmið starfsfólks og stjórnenda LSH að bæta enn frekar hag íslenskra barna og auka öryggi í meðferð. Hágæslumeðferð í einhverri mynd er liður í þeirri þróun. Vonandi verður hægt að finna því máli skynsamlegan farveg.
Ásgeir Haraldsson prófessor í barnalækningum
sviðsstjóri lækninga, Barnaspítala Hringsins, LSH,
Anna Ólafía Sigurðardóttir sviðsstjóri hjúkrunar
Barnaspítala Hringsins, LSH,
Oddur Fjalldal sviðsstjóri lækninga,
svæfinga-, gjörgæslu- og skurðstofusviði, LSH,
Kristín Ingibjörg Gunnarsdóttir sviðsstjóri hjúkrunar
svæfinga-, gjörgæslu- og skurðstofusviði, LSH.“