Þriðjudaginn 14. mars 2006
á Landspítala Fossvogi
Gunnar Sigurðsson prófessor og yfirlæknir innkirtla- og efnaskiptasjúkdóma
Góðir gestir!
Innkirtla- og efnaskiptasjúkdómadeild LSH hefur vissulega ástæðu til þess að fagna þessu nýja húsnæði sem hefur orðið til þess að nú loksins er meginhluti starfsemi deildarinnar undir einu þaki og sameiningarferlinu því náð.
Þetta nýja húsnæði og þessi sameining krafta gerir það mögulegt að opna formlega almenna göngudeild innkirtla- og efnaskiptasjúkdóma til viðbótar við göngudeild sykursjúkra.
Jafnframt hefur hjúkrunarfræðingalið göngudeildarinnar verið eflt og heimild fengist fyrir viðbótarhlutastöðu sérfræðilæknis sem ráðið verður í á næstu mánuðum.
Þessari almennu göngudeild er ætlað að sinna þríþættu hlutverki:
Í fyrsta lagi: sérhæfðri þjónustu á þessu sviði sem oft krefst samvinnu við aðrar einingar á Landspítala við greiningu og meðferð sérhæfðari innkirtlavandamála. Gott dæmi þar um eru heiladingulssjúkdómar þar sem rannsóknardeildin, myndgreiningardeildin og heilaskurðdeildin koma einnig inn í. Einnig mætti nefna nýrnahettusjúkdóma og innkirtlaháþrýsting í þessu sambandi og ýmsa aðra innkirtlasjúkdóma.
Í öðru lagi: Sem háskólasjúkrahús teljum við einnig nauðsynlegt að hér sé starfandi almenn göngudeild á þessu sviði til kennslu og rannsóknarstarfsemi svo LSH geti verið í fararbroddi í sambandi við greiningu og meðferð slíkra sjúkdóma. Slík starfsemi hefur reyndar verið starfrækt á LSH í takmarkaðri mynd, til dæmis á sviði beinþynningarrannsókna og hér utar í þessum gangi er beinþéttnimælistofa deildarinnar þar sem 2.500 mælingar hafa verið framkvæmdar árlega síðustu 10 árin og við Hringbraut á sviði skjaldkirtilssjúkdóma svo eitthvað sé nefnt.
Í þriðja lagi er deildinni ætlað að þjónusta aðrar deildir LSH, sérstaklega bráðamóttökuna og legudeildir, til að auðvelda og hraða greiningu, meðferð og útskrift slíkra sjúklinga. Því er ánægjulegt að sjá hér í dag starfsfólk frá fjölmörgum öðrum deildum LSH sem við komum til með að vinna með.
Í þessu sambandi vil ég einnig minna á bakvakt sérfræðilækna deildarinnar sem allir hafa aðgang að í gegnum símaborð spítalans.
Slík ambulant þjónusta verður einnig samhæfð við starfsemi legudeildarinnar sem staðsett er á 7. hæð hér í Fossvogi og teymisvinnuna þar.
Allt ætti þetta að leiða til samhæfðari þjónustu við sjúklinga og deildir LSH og auðvelda rannsóknarvinnu og kennslu heilbrigðisstétta.
Þessi deild ætti vissulega að nýtast í uppbyggingu framhaldsnáms lækna og fleiru.