Barnaspítala Hringsins hefur borist höfðingleg gjöf feðginanna Jóhannesar Jónssonar, Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Kristínar Jóhannesdóttur. Þau hafa tilkynnt þá ákvörðun sína að leggja allt að 300 milljónir króna til styrktar Barnaspítala Hringsins næstu 5 árin, þ.e. 60 milljónir ár hvert.
Undanfarna mánuði hafa verið kannaðir möguleikar á því að efla hágæsluþjónustu innan Barnaspítala Hringsins enda sífellt veikari börn sem dvelja á deildum hans. Því þarf hágæsla að vera meiri þegar álag er mest og nauðsyn krefur. Þannig verður þjónusta við veikustu börnin styrkt og efld. Aðstaða á barnaspítalanum er mjög góð, meðal annars til bráðameðferðar og endurlífgunar og því þarf ekki að stofna nýja deild. Öflug hágæsluþjónusta á Barnaspítala Hringsins eykur enn frekar öryggi veikustu barnanna.
Gjöfin verður m.a. notuð til að hefjast handa við að auka hágæsluþjónustu á Barnaspítala Hringsins, ráða starfsfólk og þjálfa það.
Hágæsluþjónusta er stig milli almennrar legudeildar og gjörgæsludeildar. Hún byggir á mikilli mönnun sérþjálfaðra starfsmanna og er því kostnaðarsöm. Hágæsluþjónustu má veita á ýmsum stöðum og deildum Barnaspítala Hringsins. Myndað verður teymi starfsmanna sem verður ætíð til staðar fyrir veikustu einstaklingana.
Hágæsluþjónusta á Barnaspítala Hringsins verður starfrækt í nánu samstarfi við gjörgæsludeildir LSH. Á gjörgæsludeildum er stöðug umönnun, tæknivædd vöktun, flóknar lyfjagjafir og meðferð með öndunarvélum, nýrnavélum og háþróuðum tæknibúnaði.
Allra veikustu börnin þurfa áfram að vistast á gjörgæsludeildum spítalans.
Feðginunum Jóhannesi, Jóni Ásgeiri og Kristínu
hafa verið færðar innilegar þakkir stjórnenda Landspítala - háskólasjúkrahúss fyrir mikilsvert framlag í þágu yngstu skjólstæðinga spítalans.
Tilkynnt var um stórgjöfina til Barnaspítala Hringsins í leikstofunni þar á fundi með blaða- og fréttamönnum föstudaginn 17. mars 2006. Frá vinstri Jóhannes M. Gunnarsson framkvæmdastjóri lækninga og starfandi forstjóri, Ásgeir Haraldsson prófessor og sviðsstjóri lækninga á Barnaspítala Hringsins, Anna Ólafía Sigurðardóttir sviðsstjóri hjúkrunar á Barnaspítala Hringsins, Siv Friðleifsdóttir heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og Anna Stefánsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar á LSH. |