Kynning á ársreikningi LSH 2005
Anna Lilja Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri fjárreiðna og upplýsinga
27. apríl 2006
Heilbrigðisráðherra, stjórnarnefnd og aðrir fundarmenn! Starfsemi LSH hefur farið vaxandi á liðnum árum og hélt sú þróun áfram á síðasta ári. Rekstur spítalans er umfangsmikill og á árinu sem leið var reksturinn í jafnvægi, en rúmlega hálfs milljarðs afgangur þegar tekið er tillit til fjárheimilda í fjáraukalögum ársins vegna uppsafnaðs halla fyrri ára og sölu eigna á árinu. Ársreikningur LSH er endurskoðaður og staðfestur af Ríkisendurskoðun sem einnig hefur lagt fram endurskoðunarskýrslu ársins. Þar kemur fram að skv. mati Ríkisendurskoðunar er almennt gott skipulag á fjárhagsbókhaldi spítalans, bæði hvað varðar framkvæmd þess og varðveislu gagna. |
|
Fjárheimildir og sértekjur ársins námu tæpum 29 milljörðum og heildargjöld námu rúmum 29 milljörðum og höfðu gjöldin hækkað um 4,2% á milli ára. Þar af eru launagjöld stærsti kostnaðarliðurinn, eða 67,6%. Rekstrargjöld, að meðtöldum S-merktum lyfjum, voru 29,3% af heildargjöldum og eignakaup, viðhald og stofnkostnaður 3,1%. Fjármunatekjur námu 13 m.kr. Gjöld umfram tekjur voru 33 m.kr. eða 0,1% af veltu. Skv. ársreikningi var hins vegar tekjuafgangur á rekstri LSH að fjárhæð 545,6 m.kr., þar sem sérstakir fjármunir voru veittir til spítalans á fjáraukalögum til lækkunar á neikvæðum höfuðstól sem hafði myndast vegna halla fyrri ára. Sú fjárhæð nam 523 m.kr. og er færð skv. reikningsskilavenjum ríkisins sem tekjur ársins. Þá var fasteign við Kleifarveg seld á árinu og andvirðið, 55,5 m.kr. fært til tekna á árinu 2005 en verður nýtt til uppbyggingar á barna- og unglingageðdeild spítalans á þessu ári. | |
Launagjöld hækkuðu um 6% á milli ára sem er heldur minna en hækkun launavísitölu opinberra starfsmanna og bankamanna. Dagvinnulaun jukust um 5,9%, yfirvinna um 4,1% og álagsgreiðslur um 7,5%. Áfram aukast launatengd gjöld vegna lögbundins mótframlags spítalans í séreignasjóði starfsmanna og nemur hækkunin nú 7,9%. Ekki hefur farið framhjá neinum að kjaradeila á sér stað hjá ófaglærðum starfsmönnum í umönnunarstörfum sem mun óhjákvæmilega hafa bein áhrif á launakostnað spítalans. Rekstrargjöld jukust um tæpt 1% sem er í samræmi við hækkun vísitölu neysluverðs en það er mjög óvenjulegt því reglan hefur verið sú síðustu árin að sérhæfðar lækninga-, hjúkrunar- og rannsóknarvörur og lyf hafi árlega hækkað talsvert umfram hækkun neysluverðsvísitölu. Hagstætt gengi íslensku krónunnar á síðasta ári hefur mikið að segja um þennan kostnaðarlið en einnig efling innkaupaþáttar spítalans, endurskoðun verkferla og aukin kostnaðarvitund heilbrigðisstarfsmanna. Ástæða er til að lýsa yfir áhyggjum vegna þróunar í gengismálum yfirstandandi árs á rekstur spítalans þar sem stór hluti samninga um kaup á rekstrarvöru eru bundnir gengi. |
|
Rúmum 900 m.kr. var varið í eignakaup, stofnkostnað og viðhald á árinu. Þar af var 242 milljónum varið til meiriháttar tækjakaupa, 250 m.kr. til minniháttar eignakaupa, 100 milljónir fóru til endurnýjunar á legudeildum spítalans og 94 milljónir til endurnýjunar á göngudeildum. Tækjakaup sjúkrahússins eru og verða að stórum hluta gerð með gengisbundnum samningum og því er sama gengisáhætta hér og að því er innkaup rekstrarvara varðar. | |
Uppsafnaður rekstrarhalli skv. efnahagsreikningi er 487 m.kr. og hafði lækkað frá því að vera 1.032 m.kr. í lok 2004. Skammtímakröfur voru 827 m.kr. og hafa þær hækkað á milli ára, ekki síst vegna aukinnar skuldasöfnunar heilbrigðisstofnana sem njóta þjónustu LSH, en þær kröfur nema nú hátt í 300 m.kr. og hafa farið vaxandi. Skammtímaskuldir voru 1.538 m.kr. og þó þær hafi lækkað á milli ára um hálfan milljarð þá er enn erfið greiðslustaða á spítalanum og dráttavaxtakrafa að myndast vegna vanskila við birgja. | |
Starfsemi Landspítala - háskólasjúkrahúss er mjög umfangsmikil og tel ég gagnlegt að víkja að nokkrum lykiltölum í starfsemi spítalans síðustu sex árin og þróun í rekstri hans. Ég vil benda á nýútkomna ársskýrslu spítalans og Stjórnunarupplýsingar sem auk prentaðrar útgáfu eru settar mánaðarlega á upplýsingaveitu sjúkrahússins á vefnum og eru þar almenningi aðgengilegar. Fyrst er athyglisvert að skoða þróun kostnaðar frá 1999, eða árinu fyrir sameiningu spítalanna. Á föstu verðlagi hefur rekstrarkostnaður LSH staðið í stað í sex ár. Nýlega gerði Ríkisendurskoðun stjórnsýsluúttekt á árangri sameiningar sjúkrahúsanna í Reykjavík og tók til athugunar árin 1999 til 2004. Skoðuð var m.a. þróun kostnaðar, mannafla og skilvirkni í rekstri spítalans og gerður var samanburður við bresk háskólasjúkrahús hvað varðar m.a. kostnað, framleiðni vinnuafls og nokkra gæðamælikvarða. Í stuttu máli kom þessi úttekt afar vel út fyrir Landspítala, kostnaður á föstu verðlagi stóð í stað þessi ár, ársverkum fækkaði en afköst jukust á sama tíma. Og sjúklingum á LSH reiddi betur af í langflestum þeirra tilvika sem voru til skoðunar í þessari úttekt í samanburði við breska sjúklinga. Þá vil ég vekja athygli á hlutfalli heildarútgjalda ríkisins sem spítalanum eru ætluð á hverju ári. Ætla mætti þegar horft er til fjölgunar þjóðarinnar, fjölgunar aldraðra og tækniframfara og þess að Landspítali - háskólasjúkrahús er eina sjúkrahús sinnar tegundar á landinu að hlutfallslega sé sífellt stærri hluti ríkisútgjalda að fara til reksturs spítalans. En það er öðru nær, hlutfallið hefur lækkað síðustu sex árin og mun enn lækka á þessu ári skv. rekstraráætlun spítalans og fjárlögum ársins. Árið 2005 var 8,6% af heildarfjárlögum ríkisins varið til reksturs spítalans en 9,3% á árinu 2000. Þegar hlutfall fjárveitinga LSH og vergrar landsframleiðslu er skoðað þá sést að 2,8% runnu til spítalans árið 2000 en 2,7% á síðasta ári. Þessar tölur sýna að vegna þess að raunkostnaður við rekstur LSH hefur verið óbreyttur í sex ár þá hefur spítalinn ekki fylgt hækkun landsframleiðslu og því fer minni hluti þjóðarkökunnar til reksturs spítalans nú en fyrir sex árum. |
|
Legurúmum á sólarhringsdeildum spítalans hefur verið fækkað markvisst síðustu árin. Legurúmin voru 1.260 á fyrsta árinu eftir sameiningu sjúkrahúsanna en voru skráð 848 á síðasta ári. Sama má segja um fjölda sjúklinga sem innritast á legudeildir og fjölda daga sem hver sjúklingur er inniliggjandi. Stytting meðallegutíma gerir það að verkum að hver sjúklingur liggur aðeins inni á spítalanum á meðan hann er hvað veikastur sem veldur því að bráðleiki, sem mælir umönnunarþyngd sjúklinga að meðaltali, er sífellt að aukast. Þessi þróun er einnig í nágrannalöndum okkar. | |
Hins vegar hefur stefnan hér á landi, eins og í nágrannalöndum okkar, verið sú að auka dag- og göngudeildarþjónustu til mótvægis við minnkun í sólarhringsþjónustu og styttingu meðallegutíma. Utanspítalakomur, sem samanstanda af komum sjúklinga á dag- og göngudeildir spítalans, hafa aukist jafnt og þétt og voru nálægt 350 þúsundum á síðasta ári í samanburði við rúmlega 280 þús árið 2000. Aukningin nemur um 25%. Þá hefur komum á slysa- og bráðadeildir fjölgað jafnt og þétt á síðustu árum og voru rúmlega 78.000 á síðasta ári. | |
Tæplega 15.000 aðgerðir voru framkvæmdar á skurðstofum spítalans á árinu og hafa þær aukist ár frá ári. Árið 2001 fækkaði aðgerðum nokkuð vegna endurnýjunar á skurðstofum á því ári og sameiningu sérgreina á skurðsviði. | |
Hjartaþræðingar voru rúmlega 1.000 á síðasta ári og hefur þeim fjölgað um 300 á ári frá því að vera um 700 á árinu 2000, eða um 47%. Kransæðavíkkanir voru tæplega 700 á árinu en voru um 450 árið 2000. Fjölgun kransæðavíkkana nemur því rétt tæpum 50% þessi sex ár. Meiri afköst spítalans skila sér í styttingu nánast allra biðlista eftir þjónustu spítalans. Í mörgum sérgreinum er alls engin bið, í öðrum er vinnulisti sem er styttri en þrír mánuðir og í örfáum sérgreinum er bið of löng þó hún hafi styst umtalsvert. |
|
Áhersla hefur verið á bættan rekstur spítalans og stjórnun. Alþjóðleg framleiðslumælikerfi hafa verið innleidd og samhliða hefur farið fram kostnaðargreining á þjónustuþáttum spítalans. Í flestum löndum í hinum vestræna heimi hefur fjárveitingarformi sjúkrahúsa verið breytt þannig að beint samhengi er á milli fjárveitinga og verkefna. Hér á landi er enn notast við fastar fjárveitingar á fjárlögum en eftir fimm ára starf við undirbúning er spítalinn tilbúinn fyrir breytta fjárveitingaraðferð í takt við það sem tíðkast víðast annars staðar. Mótun öflugs háskólaspítala hefur verið áherslumál á LSH í sameiningarferlinu sem þýðir að þjónusta við sjúklinga, menntun heilbrigðisstétta og ástundun vísindarannsókna eru samofin í hlutverki spítalans. Nemendum hefur fjölgað svo og sameiginlegum starfsmönnum Háskóla Íslands og LSH. Þá er mótun nýs spítala á einum stað mikilvægt framfaramál í þjónustu við sjúklinga ásamt því að vera til hagræðingar í rekstri sjúkrahússins. Samsetning viðskiptavina eftir aldri hefur mikil áhrif á starfsemina. Gert er ráð fyrir að Íslendingum fjölgi um 13% til 2025 en að fjölgunin verði enn meiri á höfuðborgðarsvæðinu. Eldri borgurum fjölgar um rúmlega 64% á sama tíma. Þessi staðreynd mun hafa mikil áhrif á hvernig heilbrigðisþjónustan þróast. Þessi þróun mun reyna mjög á heilbrigðiskerfið, ekki aðeins mun eftirspurn eftir þjónustu aukast, heldur verða færri á "vinnualdri" til að veita þjónustuna. Rétt er að minna á að rannsóknir hafa sýnt að síðustu 3 – 6 mánuðurnir í lífi hvers einstaklings eru dýrastir fyrir heilbrigðiskerfið. Einnig verður spurningin um hvað rúmist innan opinberrar fjármögnunar og hvað eigi að vera utan hennar sífellt áleitnari og þá hvað verði greitt úr eigin vasa eða af einkatryggingum, því eftirspurnin eftir heilbrigðisþjónustu er meiri en vilji er til að fjármagna af opinberu skattfé. Í þessu samhengi þurfa stjórnendur spítalans að fást við ákveðna þversögn í starfi sínu. Annars vegar er starfsemi spítalans drifin áfram af mannúðarsjónarmiðum. Hins vegar er gerð krafa um að rekstrarkostnaður spítalans rúmist innan ramma fjárlaga. Eftir að framleiðslumælikerfin voru innleidd og kostnaðargreining fór fram þá getum við séð hvað hver sjúklingur kostar á spítalanum hverju sinni og hverjar tekjurnar fyrir sjúklinginn hefðu verið værum við í fjárveitingarkerfi þar sem tekjur fylgdu verkefnum. En þá kemur siðfræðin og mannúðarsjónarmiðin sem alltaf hafa verið samofin heilbrigðisþjónustu, a.m.k. á Norðurlöndunum. Hvað varðar Íslendinga er talið að skyldan sé skýr, við sinnum öllum þeim sem þurfa á þjónustu spítalans að halda hvort sem tekjur og gjöld rýma saman eða ekki. En hlutverkið er ekki alveg eins skýrt í öðrum tilfellum, eins og t.d. hvað varðar erlenda ósjúkratryggða einstaklinga. Nýlegt dæmi er um tugmilljóna kostnað við slíkt tilfelli sem varð til á deildum Landspítala. Krafan er hallalaus rekstur en krafan er líka að Landspítali sé bundinn mannúðarsjónarmiðum og beri ríka samfélagsskyldu. Á spítalinn að fórna fjármunum í krafti mannúðar? Og á að gera sömu mannúðarkröfuna til einkafyrirtækja? Eða má þar fórna mannúð í krafti fjárhagslegrar afkomu? Sameining spítalanna gaf færi á að auka þjónustu án þess að kostnaður ykist að sama marki. Stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar staðfestir hinn góða árangur í rekstri spítalans. Ég vil sérstaklega vekja athygli á þessum árangri sem starfsmenn Landspítala - háskólasjúkrahúss hafa náð á síðustu árum en vil jafnframt ítreka að samlegðaráhrif í rekstri vegna sameiningar spítalanna hafa skilað sér og ekki verður gengið lengra fyrr en starfsemi spítalans sameinast á einum stað. Starfsmenn LSH taka alvarlega þá kröfu stjórnvalda að jafnvægi sé á milli tekna og gjalda spítalans en biðja um skilning á því vandasama og vaxandi viðfangsefni sem óneitanlega fylgir hlutverki Landspítala sem meginsjúkrahúss og háskólasjúkrahúss allra landsmanna. Takk fyrir |
|
Glærukynningin í heild (PDF) |