Nýr samstarfssamningur HÍ og LSH undirritaður
Á ársfundi Landspítala - háskólasjúkrahúss (LSH) 27. apríl 2006 var undirritaður nýr samstarfssamningur milli LSH og Háskóla Íslands (HÍ). Kristín Ingólfsdóttir rektor HÍ og Magnús Pétursson forstjóri LSH undirrituðu.
Samningurinn tekur við af samstarfssamningi sem verið hefur í gildi sl. 5 ár og markar stefnu fyrir áframhaldandi samstarf LSH og HÍ við uppbyggingu þjónustu, kennslu og rannsókna í greinum heilbrigðisvísinda og öðrum skyldum greinum.
Meðal nýrra samningsatriða er meiri tenging tannlæknadeildar HÍ við LSH en verið hefur. Kennarar tannlæknadeildarinnar munu m.a. kenna tannlæknanemum inni á spítalanum og jafnframt meðhöndla sjúklinga sem liggja á spítalanum. Einnig verður samstarf við lyfjafræðideild aukið.
Í samningnum er gert ráð fyrir frekari samþættingu í starfsemi LSH og HÍ m.a. vegna fyrirhugaðra nýbygginga fyrir LSH annars vegar og heilbrigðisvísindadeildir HÍ hins vegar.
Mörkuð er stefna um uppbyggingu framhaldsmenntunar þar sem gert er ráð fyrir að stofnað verði framhaldsmenntunarráð LSH og HÍ undir forystu LSH. Er ráðinu m.a. ætlað að ákveða fyrirkomulag starfsþjálfunar að loknu háskólaprófi, diplómanáms og framhaldsmenntunar til sérfræðiviðurkenningar. Þannig munu þeir sem hyggja á framhaldsmenntun geta stundað námið í auknum mæli á Íslandi þótt áfram sé gert ráð fyrir því að hluti framhaldsnámsins fari fram erlendis.
Áfram er lögð áhersla á sameiginleg starfsmannamál og málefni nemenda. M.a. munu aðilar í sameiningu áætla þann fjölda nemenda í heilbrigðisvísindagreinum sem nauðsynlegt er að mennta til að mæta þörfum íslensks samfélags í framtíðinni. Jafnframt er gert ráð fyrir því að sérstaklega verði skoðað hvernig skilgreina skuli starfsskyldur og verkefni þeirra starfsmanna sem vinna bæði hjá LSH og HÍ.
Lögð er áhersla á uppbyggingu vísindarannsókna en þær eru einn af hornsteinum góðrar þjónustu við sjúklinga. M.a. er stefnt að uppbyggingu sameiginlegra rannsóknarstofa eða rannsóknarstofnana sem síðar er gert ráð fyrir að þróist í sérstakt lífvísindasetur sem ætluð verði framtíðaraðstaða í nýju húsnæði spítala og háskóla.
Á samningstímanum er fyrirhugað að skilgreina sérstaklega kostnað LSH vegna menntunar nemenda við HÍ sem stunda verknám og þjálfun á sjúkrahúsinu. Aðilar eru sammála um mikilvægi þess að fjármunum vegna menntunar og rannsókna verði haldið aðgreindum svo hægt verði að áætla sérstaklega þann kostnað sem tengist háskólastarfsemi á LSH. Sérstök kostnaðargreining verður þar lögð til grundvallar. Aðilar vænta þess að þannig verði hægt að segja fyrir um hvaða áhrif breytingar innan HÍ, svo sem breyttur nemendafjöldi, hafa á rekstrarkostnað LSH.
Samningurinn gildir til 5 ára en verður endurskoðaður eftir því sem aðstæður gefa tilefni til.
|
|
Samstarfssamningur HÍ og LSH 2006 (pdf)
Eldri samningur við HÍ er hér |