Stefnumótun LSH 2006 (PDF) smellið hér. |
,,Vísindi, menntun, heilbrigðisþjónusta" eru kjörorð stefnumótunar fyrir Landspítala - háskólasjúkrahús sem starfsmenn þess unnu og hefur nú verið staðfest af stjórnendum LSH. Þeir völdu að gildi sjúkrahússins yrðu fagmennska, virðing, öryggi, jafnræði, þekking.
Gildunum er ætlað að endurspegla vinnustaðarbrag spítalans.
Stefnumótunin var kynnt á ársfundi LSH 2006 í Ými við Skógarhlíð
fimmtudaginn 27. apríl 2006.Stjórnarnefnd Landspítala - háskólasjúkrahúss hafði frumkvæði að heildarstefnumótun fyrir sjúkrahúsið sem hófst árið 2005. Tilgangur hennar er að leggja skýrar línur og bæta stjórnun, forgangsröðun og framkvæmd verkefna á LSH og skapa jákvæða og trausta ímynd í huga sjúklinga, aðstandenda, starfsmanna og almennings.
Framkvæmdastjórn skipaði á haustdögum stýrinefnd um stefnumótun og lögð var áhersla á víðtækt samráð um málefnið við starfsmenn LSH. Nefndin hefur staðið fyrir yfirgripsmiklu starfi þar sem kallað hefur verið eftir áliti fjölmargra innan sjúkrahússins. Starfsmennirnir hafa þannig tekið virkan þátt í því að móta stefnuna og þeir hafa lagt grunn að aðgerðum til þess að hrinda henni í framkvæmd. Samhliða heildarstefnumótun spítalans hófu svið og deildir einnig markvissa stefnumótunarvinnu.
Helstu stefnumál Landspítala - háskólasjúkrahúss á næstu árum eru
1.Framfarir, nýsköpun og þróun
2.Sjúklingurinn í fyrirrúmi
3.Upplýsingatækni
4.Mannafli og þróun starfa
5.Áhættustjórnun
Starfseiningar spítalans fylkja sér nú um stefnu, gildi og framtíðarsýn Landspítala - háskólasjúkrahúss með því að samræma starfsemi sína heildarstefnu LSH.
Heildarstefnukort spítalans er endurskoðað árlega samhliða gerð fjárhagsáætlana.