Fundur á þriðja hundrað stjórnenda Landspítala - háskólasjúkrahúss 11. maí 2006,
þar sem meðal annars var fjallað um siðfræði og stjórnun í heilbrigðisþjónustu, ákvað að senda eftirfarandi til stjórnvalda:
Ítrekað hefur komið fram að aldrei hafa fleiri sjúklingar dvalið á sjúkrahúsinu og bíða vistunarúrræða.
Umræða um málefni aldraðra og annarra sjúklinga sem dvelja á LSH hefur ekki farið framhjá almenningi.
Núverandi aðstæður hafa afar slæm áhrif á starfsemi sjúkrahússins.
Ógerlegt er að veita bráðveikum sjúklingum mannsæmandi þjónustu, gangalagnir eru viðvarandi,
ekki tekst að manna bráðnauðsynlegar þjónustueiningar vegna skorts á starfsfólki
og á siðferðiskennd starfsfólks reynir daglega því ekki er hægt að mæta þörfum sjúklinga eins og áskilið er.
Stjórnendur LSH telja sér skylt, fyrir hönd starfsfólks spítalans, að koma þessum sjónarmiðum á framfæri við yfirvöld fjármála og heilbrigðismála.