Annarri fundarlotu er lokið í þarfagreiningu nýs háskólasjúkrahúss og heilbrigðisvísindadeilda HÍ.
Arkitektafyrirtækið CF Möller gerir stjórnendum LSH og HÍ grein fyrir framvindunni næstu daga og þá hefst einnig endurskoðun vinningstillögu þeirra.
Til þessa verkefnis hafa LSH og HÍ skipað 10 manna vinnuhóp sem mun vinna með arkitektum og öðrum sérfræðingum CF Möller.
Endurskoðunin mun standa yfir í sumar og er áformað að hafa nýja skipulagstillögu tilbúna í lok september. Hún á að sýna heildarskipulag lóðarinnar, staðsetningu deilda LSH og HÍ í byggingum og tengsl þeirra, hugsanlega áfangaskiptingu framkvæmda og kostnaðarmat.
Endurskoðunin mun byggja á þarfagreiningunni sem unnið hefur verið að, athugasemdum dómnefndar í samkeppninni, samstarfi við skipulagsyfirvöld í Reykjavík og hugsanlega fleiri atriðum.