1. Aðalfundur læknaráðs LSH haldinn 26. maí 2006 ályktar að mikilvægt sé að ábyrgð og verksvið allra stjórnenda meðal lækna LSH sé skýrt og vel skilgreint. Nauðsynlegt er að lýsing á ábyrgð, réttindum og skyldum fylgi hverri stjórnunarstöðu. Brýnt er að þetta sé haft að leiðarljósi við gerð starfslýsinga fyrir yfirlækna og aðra stjórnendur og við skilgreiningu á hlutverkum háskólakennara innan sjúkrahússins.
2. Aðalfundur læknaráðs LSH haldinn 26. maí 2006 ítrekar mikilvægi þess að ráðningarvald sé hjá yfirlæknum sérgreina.
3. Aðalfundur læknaráðs LSH haldinn 26. maí 2006 hvetur framkvæmdastjórn LSH að grípa þegar í stað til þeirra ráðstafana sem nauðsynlegar eru til þess að "gangainnlagnir" komi framvegis ekki til álita í starfsemi LSH.
Greinargerð: Legurúmum hefur verið markvisst fækkað á undanförnum árum. Árið 1999 voru legudeildarrými 1259 en voru 848 árið 2005. Þessi fækkun hafði fyrirsjáanlegar afleiðingar þar sem ekki komu til nægjanleg önnur úrræði. Byggingar LSH rúma nú engan veginn starfsemi sjúkrahússins. Vegna plássleysis liggja sjúklingar í rúmum á göngum legudeilda. Gangainnlagnir hafa reyndar verið viðvarandi á sjúkrahúsunum í Reykjavík um árabil og eru orðnar viðtekin venja á LSH. Slík þjónusta við sjúklinga samrýmist ekki þeim kröfum sem gera á til sjúkrahússins.
4. Aðalfundur læknaráðs LSH haldinn 26. maí 2006 skorar á heilbrigðisyfirvöld að leysa þann vanda sem steðjar að sjúkrahúsinu vegna skorts á starfsfólki.
Greinargerð: Mikill skortur er á hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum, en það hefur þó legið ljóst fyrir lengi, sbr. skýrslu frá árinu 1999 um manneklu í hjúkrun. Vandinn var því fyrirsjáanlegur en ekki hefur verið brugðist við á viðeigandi hátt. Lausn vandans gæti falist í því að endurskoða uppbyggingu og skipulag umönnunarstarfa og aflétta fjöldatakmörkunum í hjúkrunarnám. Þá þarf að skoða hvort þessar mikilvægu fagstéttir vinni störf við hæfi og hafi nægilega möguleika til þróunar í starfi. Loks þarf að nýta allar leiðir til að auka starfsánægju sem er forsenda þess að unnt sé að halda í dýrmæta starfskrafta.
5. Aðalfundur læknaráðs LSH haldinn 26. maí 2006 áréttar að það er afar þýðingarmikið fyrir þjóðina að byggður verði nýr spítali sem fyrst, svo unnt verði að ljúka sameiningu sjúkrahúsanna í Reykjavík á einum stað, enda felast í því hagræðingarmöguleikar bæði í rekstri og þjónustu. Þrátt fyrir háan stofnkostnað nýs sjúkrahúss, er sá kostnaður aðeins talinn jafngilda því sem nemur rekstri þess í tæpt eitt og hálft ár. Nýtt húsnæði er því góð fjárfesting sem skilar sér fljótt í bættri þjónustu og hagkvæmari rekstri.
Ýmsar spurningar hafa vaknað varðandi vinningstillögu um deiliskipulag hins nýja sjúkrahúss. Sérstaklega hafa verið gerðar athugasemdir við dreifingu stafseminnar yfir stórt svæði og óhóflegar vegalengdir milli eininga. Læknaráð telur nauðsynlegt að lagfæra slíka hnökra við endanlega hönnun bygginga.
6. Aðalfundur læknaráðs LSH haldinn 26. maí 2006 minnir á að húsnæðisvandi sjúkrahússins er alvarlegur og háir starfsemi þess og möguleikum á frekari þróun þjónustu. Þessi vandi getur ekki beðið óleystur þar til nýtt sjúkrahús hefur verið reist. Því er nauðsynlegt að finna úrlausn til bráðabirgða, annað hvort með nýbyggingum eða nýtingu húsnæðis í námunda við sjúkrahúsið. Sérstaklega er brýnt að bæta aðstöðu fyrir sjúklinga. Þá verður að finna lausnir varðandi húsnæðisvanda rannsóknadeilda.
7. Aðalfundur læknaráðs LSH haldinn 26. maí 2006 leggur til að framkvæmdastjórn LSH ákveði skipulag sérgreina lækninga á LSH, samanber tillögur stjórnar læknaráðs frá 15. maí 2006. Sérgreinarnar verði skilgreindar sem meginrekstrareiningar sjúkrahússins hvað varðar lækningar, samanber álit stjórnar læknaráðs á heitum þjónustukjarna, skipulagi skráningar og vinnslu gagna á LSH frá 25. október 2005. Lagt er til að nafngiftir skipulagseininga lækninga verði þær sömu og sérgreina lækninga.