Stjórn hjúkrunarráðs Landspítala - háskólasjúkrahúss (LSH) fagnar því í ályktun dagsettri 19. júlí 2006 hversu mikill fjöldi nemenda hefur innritast til náms í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri næsta haust.
Fjölgun hjúkrunarfræðinga er nauðsynleg til að efla þá þjónustu sem veitt er á heilbrigðisstofnunum landsins.
Nú hafa um 230 nemendur skráð sig til hjúkrunarfræðináms í háskólunum tveimur. Stjórn hjúkrunarráðs LSH þakkar þann stuðning sem Siv Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra hefur lýst yfir við að fjölga þeim sem útskrifast úr hjúkrunarfræðinámi. Stjórnin skorar á Alþingi og ríkisstjórn að sjá til þess að hjúkrunarfræðideildir háskólanna fái það fjármagn sem þeim er nauðsynlegt til þess að aflétta fjöldatakmörkunum nemenda, sem enn eru við lýði.
Þá telur stjórn hjúkrunarráðs LSH áríðandi að undirbúningur við byggingu nýs spítala haldi áætlun. Frestun á byggingaframkvæmdum getur haft alvarlegar afleiðingar þar sem húsnæðisskortur á LSH er nú þegar óviðunandi. Með nýrri byggingu mun þjónusta við sjúklinga batna, hagkvæmni í rekstri aukast og aðstaða starfsmanna og nemenda verða betri og þar með skapast ný tækifæri til að gera spítalann að aðlaðandi vinnustað.