Stjórn Svæfinga- og gjörgæslulæknafélags Íslands hefur sent frá sér viðbrögð við yfirlýsingum Læknafélags Íslands um LSH:
Stjórn Svæfinga- og gjörgæslulæknafélags Íslands lýsir yfir furðu sinni og harmar yfirlýsingar Læknafélags Íslands á nýlegum aðalfundi þess varðandi ástand mála á Landspítala - háskólasjúkrahúsi og framtíðarþróun sjúkrahússins, en meirihluti félagsmanna starfar á svæfinga-, gjörgæslu- og skurðstofusviði LSH.
Yfirlýsingar þessar þykja svo fjarstæðukenndar að ýmsir félagsmanna hafa hvatt stjórnina að leita leiða til að segja skilið við Læknafélag Íslands þar sem ljóst sé að þeir eigi enga samleið með öflum sem þar virðast ráða ríkjum.
Telja þeir að yfirlýsingarnar og umræður í fjölmiðlum í kjölfarið lýsi á engan hátt starfsanda á LSH, heldur að þær séu eingöngu til þess fallnar að kasta rýrð á mikla og metnaðarfulla starfsemi sem þar fer fram og félagsmenn okkar rækja af samviskusemi.
Að draga í efa mikilvægi þess að nýtt sjúkrahús sé byggt með málatilbúnaði sem virðist eingöngu byggjast á þröngum sérhagsmunum lýsir ekki eingöngu ábyrgðarleysi gagnvart faglegri og akademískri þróun læknisfræðinnar í landinu heldur einnig velferð sjúklinga.
Stjórn Svæfinga- og gjörgæslulæknafélags Íslands hvetur því stjórn Læknafélags Íslands að snúa við blaðinu og leita heldur leiða til að styðja þá læknisfræðilegu og akademísku þróun sem LSH getur staðið fyrir sem öflugt háskólasjúkrahús með fjölda sérgreina og mikilli sérhæfingu.