Hjúkrunarforstjóri Landspítala - háskólasjúkrahúss hefur á árinu 2006 ráðið fjóra hjúkrunarfræðinga til starfa sem sérfræðinga í hjúkrun. Störfin voru auglýst fyrr á árinu.
Alls starfa 12 sérfræðingar í hjúkrun við nokkur svið á Landspítala - háskólasjúkrahúsi
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra samþykkti hinn 12. febrúar 2003 endurskoðaða reglugerð frá 1993 um veitingu sérfræðileyfa í hjúkrun.
Í reglugerðinni er m.a. kveðið á um hverjir geti kallað sig sérfræðinga í hjúkrun.
Sérfræðingur í hjúkrun hefur sértæka þekkingu, framhaldsmenntun og færni til að leysa viðfangsefni er lúta að hjúkrun sjúklinga og fjölskyldna þeirra og þverfaglegri samvinnu vegna þjónustu við sjúklinga.
Sérfræðingur í hjúkrun stundar rannsóknir og stuðlar að nýtingu rannsóknarniðurstaðna í hjúkrun.
Sérfræðingur í hjúkrun starfar samkvæmt starfslýsingu fyrir sérfræðinga í hjúkrun á LSH.
Meginhlutverk sérfræðinga í hjúkrun er hjúkrun, fræðsla, ráðgjöf, rannsóknir og starfsþróun.
Ásamt öðrum hjúkrunarfræðingum ber sérfræðingur í hjúkrun ábyrgð á að sjúklingar njóti bestu hjúkrunar sem möguleg er á hverjum tíma.
Enn fremur stuðlar sérfræðingur í hjúkrun að auknum gæðum hjúkrunar og er frumkvöðull og leiðtogi.
Ragna Kristmundsdóttir sérfræðingur í geðhjúkrun barna og unglinga
Ragna Kristmundsdóttir var ráðin sérfræðingur í geðhjúkrun barna og unglinga 7. júní 2006.
Ragna lauk námi í hjúkrunarfræði við Carlow University í Pittsburgh, PA árið 2000 og fór sama ár í meistaranám í barna- og unglingageðhjúkrun við University of Pennsylvania í Philadelphia, PA.
Að námi loknu starfaði Ragna við geðhjúkrun unglinga í Washington, DC auk þess að stunda einstaklingsmeðferð með nokkrum skjólstæðingum.
Á sama tíma sótti hún námskeið og handleiðslu í sandkassameðferð.
Ragna hefur unnið á göngudeild BUGL frá janúar 2005. Hún hlaut sérfræðileyfi í geðhjúkrun 7. júní 2006.
Starf sérfræðings í hjúkrun heyrir undir sviðsstjóra á viðkomandi sviði. Sem sérfræðingur í hjúkrun heldur Ragna að hluta til áfram beinni klínískri vinnu en sinnir jafnframt ýmsum öðrum verkefnum.
Sem dæmi má nefna samstarf við slysa- og bráðadeildir um verkferla fyrir sjúklinga með geðræn frávik sem leita á slysa- og bráðadeildir og gerð verkferils um yfirfærslu sjúklinga frá BUGL yfir á fullorðinsgeðdeild við 18 ára aldur. Auk þessa sinnir Ragna kennslu í barna- og unglingageðhjúkrun við hjúkrunarfræðideild HÍ, bæði fyrirlestrum og verknámi.
Páll Biering sérfræðingur í geðhjúkrun áfengis- og vímuefnasjúklinga
Páll Biering var ráðinn sérfræðingur í geðhjúkrun áfengis- og vímuefnasjúklinga 12. júlí 2006.
Páll lauk doktorsnámi í hjúkrun frá Texasháskóla í Austin árið 2001. Frá 1998 til 2002 starfaði hann sem sérfræðingur við Rannsóknarstofnun í hjúkrunarfræði, en frá 2002 hefur hann gegnt stöðu lektors við Háskóla Íslands og verkefnisstjóra við LSH. Hann hlaut sérfræðileyfi í geðhjúkrun 9. júní 2006. Sérsvið Páls eru barna- og unglingageðhjúkrun og geðhjúkrun fíknisjúklinga. Hann hefur hlotið menntun og þjálfun í fjölskyldumeðferð og áfengis- og vímuefnaráðgjöf. Páll hefur gegnt ýmsum félags- og trúnaðarstörfum. Hann hefur starfað fyrir félagasamtök, s.s. Rauða kross Íslands, setið í opinberum nefndum um stefnumótun í geðheilbrigðismálum og setið í stjórn fagdeildar geðhjúkrunarfræðinga og samtaka norrænna geðhjúkrunarfræðinga. Páll er virkur í rannsóknar- og fræðistörfum, hefur birt fjölda rannsóknargreina í tímaritum og á ráðstefnum og situr í ritstjórn Journal of Psychiatric and Mental Health Nursing.
Starf sérfræðings í hjúkrun heyrir undir sviðsstjóra á viðkomandi sviði. Sérsvið Páls er áfengis- og vímuefnahjúkrun og er þungamiðja starfs hans á legudeild áfengis- og vímuefnasjúklinga.
Hann á jafnframt náið samstarf við hjúkrunarfræðinga og annað fagfólk sem vinnur með fíknisjúklingum á öðrum geðdeildum LSH.
Tveir sérfræðingar í hjúkrun hafa verið ráðnir að öldrunarsviði en störfin voru auglýst fyrr á árinu.
Guðrún Dóra Guðmannsdóttir sérfræðingur í öldrunarhjúkrun
Guðrún Dóra Guðmannsdóttir hjúkrunarfræðingur var ráðin sérfræðingur í hjúkrun aldraðra sjúklinga 1. apríl 2006. Starf sérfræðings í hjúkrun heyrir undir sviðsstjóra. Starfið tengist öllum deildum og starfseiningum sem tilheyra öldrunarsviði og öðrum deildum sjúkrahússins eftir þörfum.
Guðrún Dóra lauk námi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands árið 1978, uppeldis- og kennslufræði til kennsluréttinda frá samam skóla árið1979 og MSc prófi frá Royal College of Nursing Institute árið 2002. Meistararannsókn hennar fjallaði um verki og verkjamat hjá öldruðum. Hún hlaut sérfræðileyfi í öldrunarhjúkrun frá heilbrigðisráðuneytinu árið 2005. Guðrún Dóra var aðjúnk við HÍ í tvö ár, hjúkrunarforstjóri á sjúkrahúsi og heilsugæslustöð á Seyðisfirði í 6 ár. Hefur hún starfað við hjúkrun nær óslitið frá því hún lauk námi, með áherslu á hjúkrun aldraðra. Hún réðst til starfa á öldrunarsviði LSH árið 2003 sem verkefnastjóri. Helstu verkefni hennar nú varða stefnumótun sviðsins og innleiðingu rafræns heilsufarsmats á öldrunarlækningadeildum ásamt fræðslu og ráðgjöf varðandi verki aldraðra.
Hlíf Guðmundsdóttir sérfræðingur í öldrunarhjúkrun
Hlíf Guðmundsdóttir hjúkrunarfræðingur var ráðin sérfræðingur í öldrunarhjúkrun 1. ágúst 2006. Starf sérfræðings í hjúkrun heyrir undir sviðsstjóra. Starfið tengist öllum deildum og starfseiningum sem tilheyra öldrunarsviði og öðrum deildum sjúkrahússins eftir þörfum.
Hlíf lauk námi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands árið 1983 og MSc prófi frá hjúkrunarfræðideild HÍ árið 2003. Hún hlaut sérfræðileyfi í öldrunarhjúkrun 27. mars 2006. Hlíf hefur starfað við öldrunarhjúkrun frá árinu 1994. Hún hóf störf í öldrunarteymi Sjúkrahúss Reykjavíkur við stofnun þess árið 1997 og tók þátt í uppbyggingu þess. Frá árinu 1999 hefur hún verið verkefnastjóri í sérverkefnum innan öldrunarsviðs með áherslu á klíníska vinnu og rannsóknir. Auk áframhaldandi starfa sinna að þeim verkefnum sinnir Hlíf nú 50% starfi sérfræðings í hjúkrun í sérhæfðu teymi heimaþjónustu fyrir veika aldraða sem hóf starfsemi nú í október í samstarfi LSH og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Hlutverk teymisins er að stýra og skipuleggja ofangreinda þjónustu, ásamt því að veita þverfaglega/fjölþátta meðferð og umönnun í heimahúsi.