Starfshópur um framhaldsmenntun á Landspítala - háskólasjúkrahúsi hefur skilað áliti sínu. Hópnum var falið að leggja á ráðin varðandi skipulag framhaldsmenntunar á LSH í samræmi við samning LSH og HÍ en í honum er m.a. fjallað um stofnun framhaldsmenntunarráðs LSH
og HÍ.
Forstjóri skipaði starfshópinn 30. nóvember 2007.
Í honum voru:
Helgi Sigurðsson prófessor, yfirlæknir
Hrund Scheving Thorsteinsson, sviðsstjóri
Kristín Björnsdóttir prófessor
Margrét Oddsdóttir prófessor, yfirlæknir
Ólafur Baldursson sviðsstjóri, starfsmaður hópsins
Þórður Harðarson prófessor, formaður
Framhaldsmenntun heilbrigðisstétta á LSH felst einkum í tvennu, þ.e. rannsóknartengdu framhaldsnámi á háskólastigi sem getur leitt til doktorsprófs, meistaraprófs eða sérstaks prófskírteinis, diplóma. Hins vegar er um að ræða sérnám í greinum heilbrigðisvísinda sem getur verið hluti af eða leitt til sérfræðiréttinda.
Í álitsgerðinni er lýst forsögu framhaldsnáms á LSH og stöðu mála hvað varðar lög og reglur.
Í öðrum kafla er lýst niðurstöðum könnunar á umfangi framhaldsmenntunar á LSH sem starfshópurinn gerði meðal forstöðumanna fræðasviða heilbrigðisgreina.
Í þriðja kafla eru tillögur starfshópsins um breytt skipulag framhaldsmenntunar á LSH.
Í lokin er samantekt og þar er horft til framtíðar.