1. Hvernig hyggst flokkurinn tryggja fjármagn til byggingar nýs háskólasjúkrahúss (þjóðarsjúkrahúss). Hvenær á framkvæmdum að vera lokið?
|
Sjálfstæðisflokkurinn | SVAR: Sjálfstæðisflokkurinn stendur fast að baki áformum um byggingu nýs þjóðarsjúkrahúss og leggur áherslu á að uppbygging þess gangi hratt og örugglega fyrir sig. Það er brýnt að bæta aðstöðu sjúklinga og aðstandenda þeirra og starfsmanna sjúkrahússins. Jafnframt gefur bygging nýs sjúkrahúss frá grunni möguleika á áherslubreytingum í starfsemi þess með aukinni göngu- og dagdeildarþjónustu í stað innlagnar, sem er í takti við þróun bestu sjúkrahúsa erlendis. Þegar hafa 18 milljarðar króna verið lagðir til hliðar af söluandvirði Símans til byggingar nýs þjóðarsjúkrahúss. Það fjármagn ávaxtast nú í Seðlabanka Íslands og býður þess að byggingar hefjist. Að öðru leyti er áætlað að bygging sjúkrahússins verði fjármögnuð á fjárlögum. Á yfirstandandi ári verður lokið vinnu við deiluskipulag og mat á umhverfisáhrifum framkvæmdanna. Áætlað er að framkvæmdir við 1. áfanga hefjist á næsta ári, en í því felast bygging bílageymsla, gatna og lagna. Þeim mun ljúka á árinu 2010. Framkvæmdir við 2. áfanga sem er fyrri hluti nýbygginga munu hefjast á árinu 2009 og verða lokið á árinu 2014. Í þessum áfanga verður byggt utan um bráðakjarna í þjónustu sjúkrahússins, sem felur m.a. í sér byggingu skurðstofa, slysamóttöku og tengdar legudeildir. Lögð er áhersla á að verkið gangi hratt og örugglega fyrir sig, þannig að á árinu 2014 verði öll bráðastarfsemi sjúkrahússins komin á einn stað, við Hringbrautina. Í febrúar á næsta ári mun liggja fyrir frumáætlun um skipulag og byggingu sjúkrahússins og mun þá liggja fyrir áætlanir um næstu áfanga í byggingu sjúkrahússins, m.a. háskólabyggingar og göngudeildir. Ekki liggja fyrir endanlegar áætlanir um lok byggingar en sá tími er liðinn að opinberar byggingar séu látnar standa hálfkláraðar árum saman.
|
Samfylkingin | SVAR: Samfylkingin hefur frá upphafi stutt byggingu nýs sjúkrahús fyrir starfsemi LSH. Við viljum stuðla að því að byggingin geti risið eins fljótt og kostur er, enda mjög dýrt að byggingartími sé langur. Ýmis útfærsluatriði þarf þó að skoða nánar.
|
2. Hvernig vill flokkurinn stuðla að lausn á húsnæðisvanda sjúkrahússins þar til nýtt háskólasjúkrahús rís?
|
Sjálfstæðisflokkurinn | SVAR: Þegar hefur vandi Blóðbankans verið leystur með flutningi í húsnæði við Snorrabraut. Við það losnar húsnæði á Landspítalalóð, en það er á höndum stjórnenda spítalans að ákvarða um notkun þess. Jafnframt er bygging á barna- og unglingageðdeild hafin og mun ljúka á næsta ári. Ekki liggja fyrir aðrar áætlanir um bráðabirgðahúsnæði meðan á byggingu nýs sjúkrahúss stendur. Sjálfstæðisflokkurinn hefur skilning á að á meðan byggingu sjúkrahúss stendur mun aðbúnaður starfsmanna og sjúklinga ef til ekki vera upp á sitt besta. Mikilvægast er þó að bygging nýs þjóðarsjúkrahúss er í sjónmáli.
|
Samfylkingin | SVAR: Samfylkingin styður að þeir þættir í starfsemi sjúkrahússins sem verst standa hvað aðstöðu varðar fái úrbætur eftir því sem kostur er, en að sjálfsögðu setur kostnaður skorður. Mikilvægast er að hraða og forgangsraða byggingu nýja sjúkrahússins m.t.t. til starfsemi sem að kreppir eins og BUGL, rannsóknarstofur spítalans, bráðamóttökur einkum í Fossvogi og aðstaða á kvennadeild, svo nokkur dæmi séu tekin.
|
3. Hvernig ætlar flokkurinn að bregðast við manneklu í heilbrigðisstéttum, svo sem hjúkrun?
|
Sjálfstæðisflokkurinn | SVAR: Nemendum í hjúkrunarfræði hefur fjölgað á síðustu árum. Á yfirstandandi skólaári 2006-2007 var nemendum í hjúkrunarfræði fjölgað um 35, þar af 25 við HÍ og 10 við HA. Frá árinu 2002 hefur nemendaplássum í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri fjölgað úr 97 í 158, eða um 63 nemendur eða um 65% . Á síðustu árum hefur hjúkrunarfræðingum fjölgað verulega. Þegar bornar eru saman skýrslur NOMESKO, norrænu heilbrigðistölfræðinefndarinnar frá árinu 1996 og 2004 kemur fram að starfandi hjúkrunarfræðingum á Íslandi hefur fjölgað verulega milli áranna 1996 og 2004 eða farið úr 516 hjúkrunarfræðingum á hverja 100 þúsund íbúa í 863 á hverja 100 þús. íbúa. Þetta er töluverð fjölgun á ekki lengri tíma og samsvarar rúmlega 1000 nýjum hjúkrunarfræðingum. Á árinu 1996 skar Ísland sig úr öðrum Norðurlöndum og var hlutfallslegur fjöldi hjúkrunarfræðinga á Íslandi langt að baki öðrum NL eða 516/100 þús. íbúa, en á hinum NL voru tölurnar á bilinu 706-1219. Tölur nú frá árinu 2004 frá hinum NL eru 896-1495 hjúkrunarfræðingar/100 þús íbúa. Í skýrslu Hagfræðistofnunar "Spá um þörf fyrir vinnuafl í heilbrigðiskerfinu" sem gefin var út í desember 2006 segir að útskrifa þurfi milli 130-140 hjúkrunarfræðinga á ári til að mæta vinnuaflsþörf. Fjöldi nemenda í hjúkrunarnámi nú virðist geta mætt þessari vinnuaflsþörf og vel það, ef marka má spá Hagfræðistofnunar. Á næstu 10 árum mun hjúkrunarfræðingum fjölga um 1400, með fyrirvörum um brottfall, en þess ber jafnframt að geta að eftir 5-15 ár munu stórir árgangar hjúkrunarfræðinga fara á lífeyri. Skortur er á sjúkraliðum til starfa. Nú hefur verið farið í átak til að gefa þeim sem hafa reynslu af störfum sem ófaglærðir starfsmenn í umönnunarstörfum á heilbrigðisstofnunum tækifæri til að afla sér réttinda til starfa sem sjúkraliðar, með sérstakri námsbraut. Þessi leið var farin í samráði við Sjúkraliðafélag Íslands. Launamál kvennastétta í heilbrigðisþjónustu hafa mikið verið til umræðu. Merkja má launamun milli hefðbundinna karlastétta og hefðbundinna kvennastétta með sambærilega lengd náms að baki. Það er ein tegund kynbundins launamunar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ályktað í þá veru að kynbundinn launamunur eigi ekki að líðast í nútíma samfélagi og að gera skuli stórátak í að jafna óútskýrðan launamun karla og kvenna. Í kjölfar þess að samið var um nýtt launakerfi opinberra starfsmanna á árinu 1997, hækkuðu laun hjúkrunarfræðinga og annarra háskólamenntaðra stétta t.d. á heilbrigðisstofnunum. Í kjölfarið hækkuðu jafnframt laun annarra kvennastétta t.d. í menntakerfinu. Í dag fylgja t.d. grunnlaun hjúkrunarfræðinga meðaltali launa innan BHM, en því var ekki að skipta fyrir 1997 og langt því frá. Það er árangur í sjálfu sér. Þetta gerðist í tíð sjálfstæðismanna í ríkisstjórn og í fjármálaráðuneytinu og munum við vinna áfram að þessu viðfangsefni.
|
Samfylkingin | SVAR: Samfylkingin mun í samstarfi við skóla og stéttarfélög auka fé til menntunar þessara stétta, bæta starfskjör og aðbúnað og leitast við að gera störf þeirra eftirsóknarverðari.
|
Sjálfstæðisflokkurinn | SVAR: Á síðustu mánuðum hefur öldruðum einstaklingum sem eru inniliggjandi á LSH og eru í bið eftir plássi á hjúkrunarheimili fækkað úr um 120 í 60. Betur hefur gengið að útskrifa aldraða af LSH inn á hjúkrunarheimili upp á síðkastið en 40% fleiri sjúklingar frá LSH fengu hjúkrunarheimilispláss árið 2006 en árið á undan. Þessu ber m.a. að þakka aukinni áherslu á forgang þeirra sem liggja á LSH inn á hjúkrunarheimili. Frá árinu 2001 hafa 580 ný hjúkrunarrými verið byggð á öllu landinu. Þar af voru á tímabilinu 2002-2006 byggð 229 hjúkrunarrými í Reykjavík, en þar til viðbótar má einnig nefna ný hjúkrunarrými á Vífilstöðum og Víðinesi. Á næstu 4 árum verða byggð 374 ný hjúkrunarrými, þar af verða 65 tekin í notkun á árinu 2007. Þessum 374 hjúkrunarrýmum er skipt eftirfarandi: · 110 rými í Markholt við Suðurlandsbraut í Reykjavík, þar af eru eru 40 rými fyrir heilabilaða og 10 rými fyrir geðsjúka. · 90 á svokallaðri Lýsislóð · 20 á Sjúkrahúsi Suðurlands, · 44 í Kópavogi, · 20 í Mosfellsbæ, · 30 í Reykjanesbæ · 30 í Hafnarfirði, · 10 á Ísafirði · 20 í Garðabæ. Alls er þetta fjölgun um fast að 1000 hjúkrunarrými á árunum 2001-2010. Á árinu 2000 voru 2048 hjúkrunarrými í landinu öllu. Þannig mun hjúkrunarrýmum á landinu fjölga um 50% á tíu ára tímabili 2001-2010. Jafnframt hefur verið gert átak í að efla heimahjúkrun. Á næstu 3 árum mun framlag til heimahjúkrunar hækka úr 540 milljónum í 1440 milljónir á ári til að auka heimahjúkrun við aldraða um allt land. Þetta er nær þreföldun á fjármagni til heimahjúkrunar. Stjórnvöld standa nú fyrir átaki í þjónustu við geðfatlaða sem nær yfir árin 2006-2010. Til þessa verkefnis er varið 1 milljarði króna af söluandvirði Símans og 500 milljónum króna úr Framkvæmdasjóði fatlaðra. Þessi framlög renna óskert til stofnkostnaðar og uppbyggingar á þjónustuúrræðum. Átakið hófst í byrjun árs 2006 með því að gerð var verkáætlun um framvindu þess og greining á þjónustuþörf og leiddi hún í ljós að þörf væri fyrir sértæka búsetuþjónustu og önnur stoðúrræði fyrir 160 einstaklinga. Verkefnið er á áætlun og á vegum þess hefur nú þegar verið tryggt húsnæði fyrir 68 einstaklinga af þeim 160 sem átakið tekur til.
|
Samfylkingin | SVAR: Samfylkingin hefur heitið því að gera að forgangsmáli byggingu 400 hjúkrunarrýma fyrir aldraða á höfuðborgarsvæðinu og bjóða öldruðum sem hafa verið metnir í brýnni hjúkrunarþörf sólarhringsþjónustu, sambærilega við þá sem LSH veitir nú um 20 öldruðum sjúklingum.
|
5. Hvað telur flokkurinn þurfa að gera til þess að styrkja rekstur sjúkrahússins fjárhagslega? Vill flokkurinn breyta fjármögnun spítalans með því að tengja fjármögnun við umfang starfseminnar (DRG)?
|
Sjálfstæðisflokkurinn | SVAR: Í nýrri landsfundarályktun flokksins segir eftirfarandi um breytingu á fjármögnun spítalans: "Endurskoða þarf fjármögnun heilbrigðisþjónustu og taka upp aðferðir þar sem þess er gætt að fjárveitingar séu í samræmi við þarfir, umfang og eðli þjónustunnar á hverjum tíma. " Þetta þýðir að horft verði til breyttrar fjármögnunar í heilbrigðisþjónustu, m.a. með því að fjárframlög til þjónustu verði samsett af föstu, breytilegum og árangurstengdum framlögum.
|
Samfylkingin | SVAR::Samfylkingin vill að farið verði yfir í kostnaðargreinda verk-fjármögnun fyrir eins stóran hluta starfseminnar og kostur er.
|
6. Hver er afstaða flokksins til einkarekstrar eða útboða einstakra verkefna í heilbrigðisþjónustu ? (hér er ekki spurt um almannatryggingakerfið eða einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar).
|
Sjálfstæðisflokkurinn | SVAR: Sjálfstæðisflokkurinn telur mikilvægt að auka samstarf við sjálfstæða aðila um rekstur einstakra þátta í heilbrigðisþjónustu. Það er m.a. hægt að gera með útboðum og þjónustusamningum. Markmiðið er að veita betri þjónustu við skjólstæðinga heilbrigðisþjónustunnar, bæta aðgengi og ná betri nýtingu fjármagns í heilbrigðisþjónustu. Í landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins segir eftirfarandi um þessi mál. "Lagt er til að sjálfstæðum aðilum verði í auknum mæli gefið færi á að taka að sér verkefni á sviði heilbrigðis- og velferðarþjónustu og að kostir einstaklingsframtaks verði nýttir á þessu sviði. Má þar t.d. nefna góða reynslu af samningum um einkarekna heilsugæslu. Áhersla er lögð á fjölbreytt framboð þjónustu, gott aðgengi að upplýsingum um hana og að fagstéttum verði ekki mismunað hvað varðar þjónustusamninga við Tryggingastofnun ríkisins."
|
Samfylkingin | SVAR: Samfylkingin styður útboðog gerð þjónustusamninga við faghópa, að því gefnu að aðgengi og kostnaður sjúklinga breytist ekki, samkeppni sé um verð og gæði, kostnaður ríkisins sé sambærilegur eða lægri og eftirlit sé með framkvæmdinni.
|
7. Hver er afstaða þíns flokks til flutnings tryggingamála frá heilbrigðisráðuneyti til félagsmálaráðuneytis?
|
Sjálfstæðisflokkurinn | SVAR: Sjálfstæðisflokkurinn er hlynntur slíkri breytingu eða annarri sem byggðist á því að aðskilja heilbrigðismál og tryggingarmál og gera ríkið að virkum kaupanda þjónustu heilbrigðisþjónustu.
|
Samfylkingin | SVAR: Samfylkingin er jákvæð gagnvart slíkri breytingu og flutti á síðasta vetri frumvarp um verulega uppstokkun á stjórnarráðinu þar sem m.a. er gert ráð fyrir að flytja málefni aldraðra og félagslegar almannatryggingar til félagsmálaráðuneytisins.
|
8. Ef heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið kemur í hlut flokksins eftir kosningar, hver verða þá forgangsverkefnin?
|
Sjálfstæðisflokkurinn | SVAR: · Fylgja eftir nýjum lögum um heilbrigðisþjónustu, þar sem gert er ráð fyrir skiptingu landsins í heilbrigðishéruð og nánari verkaskiptingu í heilbrigðisþjónustu í landinu. · Sérstakt átak í byggingu hjúkrunarheimila. · Bygging nýs þjóðarsjúkrahúss. · Efling heilsugæslunnar og er m.a. horft til aukins samstarfs við einkaaðila um rekstur heilbrigðisþjónustu sbr. einkareknu heilsugæslustöðvarnar í Salahverfi og Lágmúla. · Gera þjónustusamninga við öldrunarstofnanir, þar sem skilgreint er hvaða þjónusta er keypt, gæði þjónustu, aðbúnaður og fjöldi skjólstæðinga. · Gera samninga við sjálfstæða aðila um að taka að sér aukin verkefni á sviði heilbrigðis- og velferðarþjónustu. · Samþætta félagslega þjónustu og heilbrigðisþjónustu við þá sem njóta aðstoðar beggja kerfa. Það má m.a. gera með því að færa ákveðna þjónustuþætti til sveitarfélaga s.s. í málefnum aldraðra og fatlaðra. · Aukin áhersla á lýðheilsu og heilsueflandi aðgerðir í þágu almennings.
|
|
Samfylkingin | SVAR: Gera heildarskoðun á íslenska heilbrigðiskerfinu með aðstoð innlendra og erlendra sérfræðinga með það að markmiði að gera það skilvirkara og betra. Eyða biðlistum aldraðra eftir hjúkrunarrýmum og biðlistum barna með geðraskanir eftir greiningu og viðeigandi meðferð. Tryggja íslenskum börnum aftur ókeypis tannvernd og niðurgreidda tannlæknisþjónustu. Bæta kjör lífeyrisþega í samræmi við stefnu okkar í málefnum eldri borgara og öryrkja. Efla forvarnir, lýðheilsu, heilbrigða lífshætti, endurhæfingu og grunnheilsugæslu. Efla meðferð og eftirmeðferð fíkniefnaneytenda og geðsjúkra. Ná niður lyfjaverði til íslenska markaðarins og auka samkeppni þannig að lyfjaverð geti lækkað. Fjölga valkostum sjúklinga þar sem þess er nokkur kostur. Taka upp gæðaeftirlit með allri heilbrigðisþjónustu sem fær til sín opinbert fé að hætti Dana og Svía og gera þær upplýsingar aðgengilegar sjúklingum. Efla rannsóknir á íslenska heilbrigðiskerfinu með það fyrir augum að auka skilvirkni þess og tryggja aðgang allra óháð efnahag. Heildar endurskoðun laga um almannatryggingar og félagslega aðstoð er mjög aðkallandi verkefni, með einföldun kerfisins, réttlæti og jöfnuð að leiðarljósi. Sjá nánar á www.samfylking.is
|
|