Bent Scheving Thorsteinsson hefur fært Landspítala - háskólasjúkrahúsi (LSH) 30 milljónir króna að gjöf sem stofnfé í styrktar- og verðlaunasjóð sem stofnaður hefur verið í hans nafni. Magnús Pétursson forstjóri LSH tók við gjöfinni við athöfn á LSH 4. júlí 2007 og færði gefandanum þakkir fyrir rausnarlegt framlag og mikilvægan stuðning til vísindastarfs.
Bent Scheving Thorsteinsson segist færa LSH þessa gjöf af gefnu tilefni og sem þakklæti fyrir frábæra umönnun hjartalækna og hjarta- og lungnaskurðlækna. Við afhendinguna bað Bent fyrir bestu þakkir til alls starfsfólk þeirra deilda sem hafa veitt honum þjónustu. Sú þjónusta hefði verið framúrskarandi góð.
Hlutverk og markmið Styrktar- og verðlaunasjóðs Bent Scheving Thorsteinsson er að veita styrki og verðlaun fyrir vísindaleg afrek, rannsóknir og ritgerðir og skylda starfsemi á sviði hjartalækninga og hjarta- og lungnaskurðlækninga.
Magnús Pétursson forstjóri LSH, Uggi Agnarsson hjartalæknir og Þórarinn Arnórsson hjarta- og lungnaskurðlæknir skipa fyrstu stjórn sjóðsins.
Bent Hillman Sveinn (Óskarsson) Scheving Thorsteinsson fæddist 12. janúar 1922 í Árósum í Danmörku. Foreldrar hans voru Þorsteinn Scheving Thorsteinsson lyfsali í Reykjavík og Guðrún Sveinsdóttir, sem síðar giftist Óskari Þórðarsyni. Bent Scheving varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1943 og lauk B.SC.E prófi frá Wharton School of Finance and Commerce í University of Pennsylvania í Bandaríkjunum 1945 og stundaði nám við Wharton Graduate School of Finance and Commerce í þrjú misseri. Hann var við störf í viðskiptamálaráðuneytinu 1947, var deildarstjóri og fulltrúi skömmtunarstjóra 1947 – 1950, fulltrúi hjá póst- og símamálastjóra 1950 – 1953, starfsmaður Metcalfe Hamilton og síðar Hedric Grove á Keflavíkurflugvelli 1953 – 1957, fulltrúi hjá Rafmagnsveitum ríkisins 1957, deildarstjóri þeirra frá 1961 og fjármálastjóri til ársins 1984. Frá 1984 til 1995 hafði Bent Scheving Thorsteinsson verðbréfaviðskipti að aðalstarfi. Hann hefur setið í stjórnum margra hlutafélaga og sinnt trúnaðarstörfum fyrir ýmis félög. Eiginkona hans er Margaret Ritter Ross Wolfe frá Pennsylvania í Bandaríkjunum. Þau bjuggu lengi í Bandaríkjunum en fluttu hingað til lands árið 2003.
Mynd fyrir ofan: Bent Scheving Thorsteinsson les upp gjafabréfið við hlið eiginkonu sinnar, Margaret Ritter Ross Wolfe. Hún er frá Bandaríkjunum og gjöfin var einmitt afhent á þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna.
Mynd fyrir neðan: Bent Scheving Thorsteinsson er afar þakklátur starfsfólki LSH fyrir frábæra umönnum. Hann þakkar ekki síst þeim tveimur mönnum sem sitja hér úti á enda honum á báðar hendur að hafa yfirleitt tórað, Ugga Agnarssyni hjartalækni og Þórarni Arnórssyni hjarta og lungnaskurðlækni. Við hliðina á Margaret er Magnús Pétursson forstjóri LSH sem tók við gjöfinni.