Ráðherrabústaðurinn
30. ágúst 2007
Birna Kr. Svavarsdóttir formaður stjórnarnefndar LSH
Hæstvirtur heilbrigðisráðherra, góðir gestir!
Undir aldamótin 1900 voru læknamálin í landinu sífellt til umræðu, annarsvegar um kennslu lækna og hins vegar um byggingu sjúkrahúss í Reykjavík. Jón Hjaltalín landlæknir skrifaði til dæmis 1844 um að rétt væri að steypa öllum holdsveikraspítölum í landinu saman og gera úr þeim einn spítala. Þeir höfðu á sér misjafnt orð og voru jafnvel sagðir argvígustu óþrifabæli. Nokkrum árum síðar var þeim lokað með konungsbréfi, að ósk Alþingis Íslendinga. Eignum spítalanna og tekjustofnum var síðan varið til þess að standa undir kostnaði af nýskipan heilbrigðismála í landinu. Megin málið var að byggt yrði eitt almennt sjúkrahús í Reykjavík og þá heyrðist í fyrsta skiptið nafnið Landspítali.
Fyrsti forveri núverandi Landspítala varð svo Sjúkrahús Reykjavíkur sem hóf rekstur á efri hæð í húsi Skandinavia við enda Austurstrætis en samkvæmissalur og leikhús bæjarins voru á neðri hæðinni. Það hætti starfsemi sinni með tilkomu 40 rúma Sankti Jósepsspítala sem Sankti Jósefssystur opnuðu árið 1902 við Túngötu í Reykjavík. Franski spítalinn var síðan byggður í Laugarnesi og tekinn í gagnið 1904 með 20 rúmum og ætlaður fyrir franska fiskimenn hér við land.
Árið 1917 skipaði landstjórnin undirbúningsnefnd að byggingu Landspítalans og var sprengt fyrir grunni hans á ísaldarklöpp í Skólavörðuholtinu árið 1920. Teikningin var eftir Guðjón Samúelsson arkitekt. Hópur kvenna, með Kvenfélagið Hringinn í fararbroddi, hafði komið að undirbúningi spítalans til margra ára með söfnun fjár og fengið loforð frá ríkistjórninni um að veitt yrði fé til byggingar Landspítalans. Árið 1925 gerðust þær óþolimóðar og gagnrýndu opinberlega svik og sofandahátt stjórnvalda. Þann 15. apríl sama ár var haldinn almennur borgarafundur í Nýja-Bíói til þess að fylgja málinu eftir og þá komst skriður á það. Þann 15. júní ári síðar lagði Alexandría, drottning Kristjáns X. konungs, við hátíðlega athöfn hornsteininn að Landspítala í austustu gluggakistuna í kjallara spítalans. Aðalbyggingin var svo tekin í notkun 20. desember árið 1930 með rúmum fyrir 100 sjúklinga. Stjórn spítalans var skipuð yfirlæknunum, ráðsmanni og landlækni.
Í ársbyrjun 1935 skipuðu stjórnvöld fimm manna yfirstjórn sjúkrahúsa og annarra heilbrigðisstofnana í landinu. Síðar settust í stjórnarnefnd fulltrúar starfsmanna. Með skipun stjórnarnefndar fyrir ríkisspítalana var lagður grunnur að sameiginlegri yfirstjórn þeirra. En Ríkisspítalar kölluðust þeir spítalar sem ríkið átti að fullu, rak fyrir eigið fé og stjórnaði. Undir lokin átti þetta orð þó í reynd aðeins við Landspítalann. Verkefni stjórnarnefndar var að skipuleggja og samræma rekstur þessara stofnana þeim til hagsbóta, koma á samvinnu á milli þeirra eftir því sem hagkvæmt þætti og sjá til þess að þær kæmu fram sem ein heild við samninga og vörukaup. Fyrsti formaður stjórnarnefndar var Vilmundur Jónsson landlæknir.
Í framhaldi af skipun stjórnarnefndar var sett á stofn sameiginleg skrifstofa og ráðinn framkvæmdarstjóri til að annast daglegan rekstur spítalanna. Síðar var ráðinn forstjóri og honum til aðstoðar framkvæmdastjórar sem mynduðu framkvæmdarstjórn spítalans.
Ríkisspítalar voru reknir til ársins 2000 þegar Landspítali - háskólasjúkrahús varð til við sameiningu Sjúkrahúss Reykjavíkur og Landspítalans. Stjórnarnefnd Ríkisspítala varð þá stjórnarnefnd LSH.
Saga annars forvera LSH, Landakotsspítala, er samofin sögu Reykjavíkur í heila öld en stjórnardeild trúboðsmála í Páfagarði eignaðist Landakotsjörðina í Reykjavík 1894 eftir að þýska biskupnum Jóhannesi Von Euch, sem var settur yfir Danmörku, Færeyjar og Ísland, var falið af páfa að auka uppbyggingu í biskupsumdæminu.
Landakotsjörðin og byggingar henni tengdar höfðu í 35 ár verið í eigu kaþólskra trúboðsaðila á vegum Frakka en trúboðsstöðin verið yfirgefin í 19 ár þegar biskupinn sendi íslenskan Jesúítaprest, sr. Jón Sveinsson, Nonna, til landsins til að kanna aðstæður. Biskupinn sendi ári seinna til Íslands presta og síðar reglusystur aðallega til að vinna við kennslu og hjúkrunarstörf. Tortryggni einkenndi viðbrögð margra Íslendinga gagnvart starfi systranna og einnig hjá prestum þjóðkirkjunnar. Greinileg merki sjást í heimildum um áhuga systranna á að byggja almennt sjúkrahús í Reykjavík en það naut hins vegar ekki hylli hjá stjórnmálamönnum. Loks fékkst þó leyfi til þess að byggja á Landakotstúni og nýr spítali var vígður 16. október 1902, vandað og vel útbúið sjúkrahús með 40 sjúkrarúmum í fyrstu. Landakot var selt ríkissjóði 1976 og starfrækt sem sjálfseignarstofnun með rekstrarfé frá ríkinu til ársins 1995. Þá var spítalinn sameinaður Borgarspítala og Sjúkrahús Reykjavíkur varð til.
Vilmundur landlæknir skrifaði til bæjarráðs Reykjavíkur í febrúar 1934 og gagnrýnir lítil fjárframlög bæjarins til sjúkrahúsa og heilbrigðismála. Hann hvetur bæjarfélagið til þess að taka forystu í heilsuverndarmálum og segir að Reykjavík verði að eignast sómasamlegt bæjarsjúkrahúss. Landspítalinn hafði fljótlega reynst of lítill. Viðbótarbyggingin við Landakot og Hvítabandssjúkrahúsið dugði heldur ekki til að mæta hraðri fólksfjölgun í Reykjavík. Það var samt ekki fyrr en í desember 1948 sem bæjarstjórn Reykjavíkur skipar nefnd til að undirbúa byggingu Borgarspítalans í Fossvogi. Ári síðar var húsameistara bæjarins, Einari Sveinssyni ásamt Gunnari Ólafssyni arkitekt, falið að hanna sjúkrahúsið.
Húsið var í byggingu til ársins 1965. Framkvæmdum var oft frestað, meðal annars vegna þess að forsendur og hugmyndir breyttust, auk þess sem lögboðin framlög ríkisins létu allan byggingartímann á sér standa.
Starfsemi Borgarspítalans í Fossvogi hófst 28. desember 1967. Árið 1995 sameinuðust Borgarspítali, Landakot, Grensás, Arnarholt og Hvítabandið í Sjúkrahús Reykjavíkur sem starfaði til ársins 2000. Yfirstjórn spítalans var fyrst á höndum sjúkrahússnefndar en síðar stjórnar sem réði forstjóra og framkvæmdarstjórn til þess að sjá um og bera ábyrgð á daglegum rekstri.
Ríkið tók við rekstri Sjúkrahúss Reykjavíkur og Ríkisspítalanna árið 1999 og einn forstjóri var ráðinn yfir báðar stofnanirnar. Við sameiningu þeirra 3. mars árið 2000 varð Landspítali - háskólasjúkrahús til.
Frá sameiningunni árið 2000 hefur allt skipulag hins nýja spítala verið gaumgæft; stjórnun, fjármál, fagmál og samskipti. Samstarfssamningur var gerður við Háskóla Íslands um uppbyggingu kennslu og rannsókna í heilbrigðisvísindagreinum. Þar þurfti umbætur. Lengi hefur líka verið ljóst að þjóðin yrði að eignast nýtt landssjúkrahús til þess að mæta þörfum og breyttum kröfum sem núverandi byggingar ráða illa við. Að því hefur undanfarin ár verið unnið af mikilli festu og framsýni bæði af hálfu stjórnvalda og starfsmanna Landspítala. Vendipunktur varð þegar ríkisstjórn Íslands ákvað 18. janúar árið 2005 að heimila LSH að auglýsa skipulagskeppni um hönnun nýs spítala og hefja annan undirbúning honum tengtan. Síðan hefur verið unnið eins faglega að undirbúningi og framast er unnt. Fjöldi manns, ráðgjafar, hönnuðir og sérfræðingar hafa lagt verkefninu lið.
Nú eru enn tímamót í heilbrigðismálum landsmanna. Ný heildarlöggjöf um heilbrigðismál tekur gildi 1. september og henni fylgja margs konar breytingar sem við treystum að verði til góðs fyrir heilbrigðiskerfið. Sumt snýr beint að Landspítala, eins og landssjúkrahúsið heitir frá mánaðamótum. Önnur breyting er sú að stjórnarnefnd hverfur úr stjórnskipulagi stofnunarinnar. Á starfstíma núverandi stjórnarnefndar Landspítala - háskólasjúkrahúss hefur verið tekið á mörgum málum sem hafa tengst uppbyggingu nýja háskólasjúkrahússins og þróun heilbrigðislöggjafarinnar. En verkefnin framundan eru samt mörg og stór. Brýnt viðfangsefni um þessar mundir er til dæmis að móta skynsamlegar leikreglur í samvinnu opinberra stofnana sem veita heilbrigðisþjónustu og einkaaðila. Mikilvægt er líka að setjan nýjan kraft í gerð rafrænnar sjúkraskrá og ekki verður hjá því komist að treysta fjárhag spítalans. Fjárveitingar til sjúkrahússins verða að vera í takti við þá þjónustu sem sjúkrahúsinu er ætlað að veita.
Ánægjulegt hefur verið að fylgjast með því hve margir landsmenn hafa sýnt Landspítala vinarhug. Þetta er þakkarvert og minnir á mikilvægi samstarfs sjúkrahússins við velunnara og hollvini.
Ég vil þakka öllum sem hafa starfað í stjórnarnefndinni og þeim fjölmörgu sem lagt hafa henni lið með ýmsum hætti, innan spítalans og utan. Heilbrigðisráðherra þakka ég fyrir gott boð og óska honum velfarnaðar í vandasömu starfi. Einnig óskar fráfarandi stjórnarnefnd nýrri ráðgjafarnefnd LSH, stjórnendum spítalans og starfsmönnum heilla og velgengni á komandi árum.