"Landspítali er aðalsjúkrahús landsins og háskólasjúkrahús". Þannig hefst 20. grein nýrra laga um heilbrigðisþjónustu sem tóku gildi 1. september 2007.
Sá kafli laganna fjallar um Landspítala sem er þar með orðið opinbert heiti háskólasjúkrahússins frá sama tíma.
Frá sameiningu sjúkrahúsanna í Reykjavík árið 2000 hefur opinbert heiti sjúkrahússins verið Landspítali - háskólasjúkrahús.
Framkvæmdastjórn LSH fjallaði á fundi sínum þriðjudaginn 4. september um nýja heitið á spítalanum. Mælst er til þess að í rituðum texta verði farið að skrifa Landspítali (án greinis) og sleppa þar með seinni hlutanum, þ.e. bandstriki og orðinu háskólasjúkrahús. Í ræðu og riti verði orðið háskólasjúkrahús hins vegar notað markvisst til þess að minna á þá mikilvægu háskólastarfsemi sem fram fer á sjúkrahúsinu. Einkennismerki (lógó) Landspítala verði óbreytt, þ.e. að orðið háskólasjúkrahús standi þar áfram með vísan til þess ákvæðis í heilbrigðislögunum að Landspítali sé háskólasjúkrahús. Á sama hátt verði skammstöfun fyrir háskólasjúkrahúsið hér eftir sem hingað til LSH og þannig vísað bæði til heitisins Landspítali og þess að hann sé háskólasjúkrahús.