Fulltrúar tuttugu lífeyrissjóða, og heilbrigðis-, forsætis- og fjármálaráðherrar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um að hefja samstarf við undirbúning að fjármögnun, útboði og framkvæmdum við nýbyggingu Landspítala við Hringbraut.
Yfirlýsingin sýnir fram á stuðning við verkefnið og skapar nauðsynlegan trúverðugleika þess.
Viljayfirlýsingin undirrituð (pdf)
Viðkomandi lífeyrissjóðir eru með 83,22% af heildareignum lífeyrissjóða landsmanna.
Fulltrúar lífeyrissjóða sem undirrituðu viljayfirlýsinguna (pdf)
Ráðherrarnir sem undirrituðu viljayfirlýsinguna voru Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra, Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.
Framkvæmdir seint á árinu 2011
Gert er ráð fyrir því að sjálfar framkvæmdirnar hefjist á síðari hluta árs 2011 og standi fram á árið 2016. Strax á árinu 2010 verða til störf fyrir arkitekta og verkfræðinga við hönnunar- og undirbúningsvinnu en langflestir koma til með að starfa að framgangi verkefnisins á árunum 2013-2015 þegar framkvæmdir standa sem hæst.
Heildarkostnaður við nýbygginguna verður um 33 milljarðar króna. Þar við bætist áætlaður kostnaður við ýmsan búnað spítalans, 7 milljarðar króna, og kostnaður við endurbyggingu eldra húsnæðis, um 11 milljarðar króna. Ráðgert er að nýbyggingin verði alls 66.000 fermetrar í þremur meginhlutum:
- bráðakjarna með bráðamóttöku, myndgreiningu, gjörgæslu og skurðstofum,
- legudeildum með 180 rúmum sem öll eru í einbýli,
- sjúklingahóteli með 80 herbergjum.
Vinnuaflsþörf á framkvæmdatíma nýbyggingarinnar er áætluð alls 2.644 ársverk.
Framkvæmdir við nýjan Landspítala 2009 til 2016 - tímaskeið
Yfirlýsingin á sér rætur í stöðugleikasáttmálanum
- Í stöðugleikasáttmála ríkisstjórnarinnar, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins frá 25. júní 2009 er m.a. kveðið á um samstarf við lífeyrissjóði við að fjármagna stórframkvæmdir.
- Ríkisstjórnin ákvað 25. september 2009 að undirbúa byggingu nýs Landspítala og í fram-haldinu var skipaður vinnuhópur vegna verkefnisins. Þar eiga sæti fulltrúar ráðuneyta, Landspítala, Háskóla Íslands og lífeyrissjóða. Á vettvangi vinnuhópsins hafa verið lagðar þær meginlínur undirbúningsins og verkefnisins sjálfs sem birtast í viljayfirlýsingunni.
- Hefðbundinn rekstur Landspítala verður áfram á forræði ríkisins og kemur ekki við sögu á neinn hátt í viljayfirlýsingunni eða í verkefninu yfirleitt.
Sameining sparar strax 2 milljarða króna á ári
Stefnt er að því að sameina starfsemi Landspítala við Hringbraut og leggja jafnframt af spítalarekstur í Fossvogi. Sérfræðingar tveggja norskra hönnunar- og ráðgjafarfyrirtækja komust að þeirri niðurstöðu í skýrslu í apríl 2009 að hagkvæmast væri að sameina rekstur Landspítala með nýbyggingum við Hringbraut. Fyrsti áfangi verkefnisins myndi skila strax 6% sparnaði í rekstri spítalans eða sem svarar til ríflega tveggja milljarða króna á ári.
Verkefnisstjórn og hönnunarsamkeppni
Gert er ráð fyrir því að stofnuð verði verkefnisstjórn til að undirbúa og annast hönnunarsamkeppni sem hefjist fyrir árslok 2009. Unnið verði að skipulagsmálum, hönnun og undirbúningi útboðs á árinu 2010 og fram eftir ári 2011. Verkefnið, þ.e. fullnaðarhönnun, framkvæmd og fjármögunun, verði samkvæmt þessu boðið út á öðrum ársfjórðungi 2011 og framkvæmdir hefjist snemma hausts 2011. Framkvæmdir standi síðan fram á árið 2016; meginþungi þeirra verði á árunum 2013-2015.
Gert er ráð fyrir því að verkefnisstjórnin standi að samþættri hönnunarsamkeppni og hönnunarútboði. Það teymi, sem verður hlutskarpast í samkeppninni, starfar með verkefnisstjórn að frumdrögum, forhönnun sjúkrahússins og gerð útboðsgagna.
Þegar forhönnun lýkur verður boðin út fullnaðarhönnun, bygging, fjármögnun og rekstur bygginga nýs Landspítala.
Landspítali eignast byggingarnar að loknum löngum leigutíma (40 ár).
Í Spítalapúlsinum 6. nóvember 2009
Ávarp Álfheiðar Ingadóttur heilbrigðisráðherra við undirritun viljayfirlýsingar um nýjan Landspítala