Landspítali fagnar 80 ára afmæli í ár. Af því tilefni efnir listmuna- og minjanefnd spítalans til sýningar í elsta hluta Landspítala Hringbraut. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, opnar sýninguna þriðjudaginn 15. júní 2010, kl. 13:30.
Alexandrína, drottning Danmerkur og Íslands, lagði hornstein að byggingu Landspítala við hátíðlega athöfn 15. júní 1926. Fyrsti sjúklingurinn var síðan lagður inn á spítalann 20. desember 1930. Á sýningunni er leitast við að varpa ljósi á aðdraganda byggingar Landspítala, fyrstu starfsárin og á listaverkaeign spítalans.
Sýningin skiptist í sex hluta. Hún er á göngum og í stigahúsi (gengið inn um aðalinngang, Kringluna):
- Fyrstu skrefin: Þáttur kvenna
- Fyrstu skrefin: Bygging Landspítala
- Fyrstu skrefin: Gömul lækningaáhöld
- Gamlar ljósmyndir frá 1933
- Listaverkaeign Landspítala: Framlög úr Listskreytingasjóði ríkisins
- Listaverkaeign Landspítala: Andlit spítalans.
Við opnun sögusýningarinnar verður afhjúpuð mynd af Vigdísi Magnúsdóttur (1931-2009), fyrrverandi hjúkrunarforstjóra og forstjóra Landspítala.
Allir eru velkomnir á formlega opnun sýningarinnar Landspítali 80 ára. Sýningin verður uppi til 20. desember 2010.