Kæra samstarfsfólk!
Á bráðamóttökuna í Fossvogi leituðu tæplega 220 einstaklingar í gær og lætur nærri að um helmingur þeirra hafi þurf aðstoð okkar vegna hálkuslysa. Þetta er gríðarlegur fjöldi og að líkindum eitt það mesta sem við höfum séð í langan tíma. Meiðslin eru misalvarleg en mikill fjöldi hefur þó þurft skurðaðgerð og legu hjá okkur í framhaldinu. Samhliða færist inflúensan enn í aukana svo álagið á spítalanum er með mesta móti. Þessi árstíðabundna aukning í starfseminni kemur okkur auðvitað ekki á óvart, þótt vissulega sé hér nokkur viðbót við það sem við erum vön að sjá. Æskilegt væri að við gætum fjölgað starfsfólki hjá okkur og aukið framboð legurýma við þessar aðstæður en því miður er staðan sú að vegna skorts á starfsfólki - einkanlega hjúkrunarfræðingum - hefur þurft að fækka legurýmum fremur en hitt. Hér er á ferðinni risastórt úrlausnarefni sem horfa verður út fyrir Landspítala til að leysa.
„Í húsi föður míns eru margar vistarverur“ segir í ágætri bók og það á sannarlega við um Landspítala. Þrátt fyrir erfiða stöðu hjá okkur þessa dagana, sem reifaðar voru hér að ofan, gerast ýmsir jákvæðir og góðir hlutir á sama tíma. Í vikunni fögnuðum við opnun nýrrar og endurbættrar aðstöðu Neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis. Það er okkur dýrmætt að geta boðið notendum þessarar viðkvæmu þjónustu styðjandi umhverfi en umbæturnar byggja á niðurstöðu Lean-vinnustofu sem haldin var með fjölda fulltrúa þeirra sem að þessum málum koma. Við leituðum samstarfs innan og utan Landspítala við þá sem að málum þessum koma og aðstoð fulltrúa þolenda og aðstandenda þeirra var sérstaklega mikilvæg. Hvað verklag í þjónustunni sjálfri varðar hafa þegar verið gerðar umtalsverðar umbætur og við vinnum áfram að því að bæta þjónustuna í samræmi við stefnu Landspítala.
Á dag- og göngudeildum Landspítala fer fram öflugt og gott starf sem of sjaldan fær athygli. Sömuleiðis eru starfandi hjá okkur sérhæfð teymi sérfræðinga sem sinna mikilvægu stuðningshlutverki við sjúklinga sem til spítalans leita. Þarna fer fram afar mikilvæg þjónusta sem styður fólk fyrir og eftir meðferð hjá okkur og er gagnsemi hennar ótvíræð enda stendur hugur okkar til þess að efla þessa þjónustu mikið. Ágætt dæmi um þetta er þverfaglegt endurhæfingarteymi fyrir sjúklinga sem greinst hafa með krabbamein. Markmið teymisins er að aðstoða einstaklinga við að endurheimta og viðhalda sem bestri virkni, heilsu og lífsgæðum. Þjónustan er fjölbreytt en m.a. er lögð áhersla á fræðslu og hefur teymið nýlega gefið út kynningarefni um krabbameinstengda þreytu.
Það er gott til þess að hugsa í amstri og annríki daganna að á Landspítala starfar einvala lið sem á hverjum degi leggur sig fram við að þróa þjónustu við þá sem svo sannarlega þurfa á henni að halda.
Góða helgi öll sömul!
Páll Matthíasson