Davíð O. Arnar yfirlæknir hjartalækninga á Landspítala og Frieder Braunschweig yfirlæknir á sviði hjartalækninga á Karolinska sjúkrahúsinu undirrituðu í dag samkomulag um víðtækt samstarf. Samkomulagið var kynnt á fundi sem var liður í heimsókn forseta Íslands á Karolinska sjúkrahúsið í Stokkhólmi að viðstöddum forsetahjónunum og Sænsku konungshjónunum í Wallenberg sal Nóbelshússins.
Að sögn Davíðs felur samkomulagið í sér möguleika á fjölþættu samstarfi hvað varðar framhaldsmenntun, vísindarannsóknir og klíníska þjónustu. Davíð segir að þetta gæti orðið góður samningur fyrir báða aðila og auðveldar til að mynda aðgengi íslenskra lækna að framhaldsmenntun í hjartalækningum á Karolinska sjúkrahúsinu auk þess að stórefla tækifæri til vísindarannsókna. Þetta skapar einnig áhugaverða möguleika á gagnkvæmum vistaskiptum lækna og hjúkrunarfræðinga til skemmri tíma sem geti nýst mjög vel til að efla starfsþróun.
Mynd: Davíð O. Arnar yfirlæknir hjartalækninga á Landspítala og Frieder Braunschweig yfirlæknir á sviði hjartalækninga á Karolinska sjúkrahúsinu.