Mjólkursamsalan hefur fært Landspítala að gjöf tæki til aðgerða á lifur. Ari Edwald, forstjóri Mjólkursamsölunnar, afhenti CUSA-tækið 23. janúar 2018 en safnað var fyrir því síðastliðið haust með átakinu „Mjólkin gefur styrk“. Fernur með D-vítamínbættri léttmjólk fengu þá tímabundið annað útlit og runnu 30 krónur af hverri þeirra til tækjakaupa fyrir Landspítala. Alls söfnuðust um 15 milljónir króna.
Tækið, sem í daglegu tali er kallað Kusa, er annað af tveimur sem keypt voru fyrir söfnunarféð. CUSA er skammstöfun fyrir Cavitron Ultrasonic Surgical Aspirator og er einkum notað við aðgerðir á lifur. Alma Möller, framkvæmdastjóri aðgerðarsviðs, segir að slíkum aðgerðum fjölgi, ekki síst vegna þess að nú eru gerðar aðgerðir vegna meinvarpa frá ristilkrabbameini sem minna var um áður.
Kusa leysir af hólmi 20 ára gamalt tæki og gerir skurðlæknum jafnframt kleift að nota kviðsjá við slíkar aðgerðir. Inngripi með kviðsjá fylgir minna álag fyrir sjúklinginn sem þarf þá styttri sjúkrahúslegu en ella. Enn fremur voru fest kaup á barkaspeglunartæki fyrir bráðamóttöku sem auðveldar barkaþræðingu hjá mikið slösuðum og veikum sjúklingum.
„Það er okkur sönn ánægja að geta lagt Landspítala lið fjórða árið í röð og vonum við að Kusan efli enn frekar það frábæra starf sem unnið er á spítalanum,“ sagði forstjóri Mjólkursamsölunnar við afhendingu tækjanna.
Söfnunarátakið Mjólkin gefur styrk hefur á undanförnum fjórum árum veitt Landspítala styrki til tækjakaupa að verðmæti 60 milljónir króna.