Kæra samstarfsfólk!
Það er kannski fullsnemmt, svona í flensutíð á miðjum þorra, að tala um að vorið sé á næsta leiti. Ég leyfi mér nú samt að horfa aðeins út úr sortanum enda er helsti vorboðinn á Landspítala „Vísindi á vordögum“ og nú hefur Vísindasjóður Landspítala auglýst vorúthlutun Vísindasjóðs Landspítala 2018. Það þarf ekki að orðlengja við starfsfólk Landspítala mikilvægi vísindastarfs, sem er jú ein undirstaða starfsemi spítalans. Það að vísbendingar séu um að við höfum dregist aftur úr í vísindastarfi á að vera okkur öllum og stjórnvöldum hvatning til að slá verulega í klárinn. Öflun nýrrar þekkingar í heilbrigðsvísindum er hornsteinn háskólasjúkrahúss og þar viljum við skipa fremsta bekk. Öflugt vísindastarf er ein helsta ástæða þess að ungt og vel menntað starfsfólk sækir á Landspítala og þannig sækjum við áfram í þjónustu við sjúklinga framtíðarinnar.
Talandi um framtíðina - í vikunni voru Framadagar í Háskólanum í Reykjavík en þar áttum við stefnumót við fjölmarga áhugasama nemendur í ýmsum fræðigreinum. Þetta er afskaplega skemmtilegur vettvangur og mjög gaman fyrir okkur að kynna Landspítala sem spennandi vinnustað fyrir framtíðarfólki. Vissulega eru læknar og hjúkrunarfræðingar meirihluti starfsfólks spítalans, eðli máls samkvæmt, en það er ástæða til að minna á að hjá okkur starfar fólk úr fjölbreytilegustu greinum, starfsmenn yfir 5.000 talsins og starfsheitin hjá okkur 195.
Að lokum langar mig að vekja athygli á því að nýr vefur Landspítala fór í loftið nýlega eftir gríðarmikinn undirbúning. Fjöldi manns kom að undirbúningnum og nú liggur fyrir vefur sem er aðgengilegri notendum. Markmiðið er að vefurinn sé þjónustuvænn, viðmótið nútímalegt og gagnvirki aukin. Ýmsar spennandi nýjungar eru á döfinni og komast í gagnið á næstu vikum svo sem netspjall. Ekki hvað síst munu notendur njóta þess að vefurinn er nú aðgengilegri, einfaldari og hraðvirkari. Þetta á að gilda um alla enda er nú unnið að aðgengisúttekt á vefnum þannig að efni okkar sé aðgengilegt öllum samfélagshópum í samræmi við WCAG2.0 AA staðalinn, m.a. fólki með sérþarfir og fötlun.
Góða helgi!
Páll Matthíasson