Elínborg G. Sigurjónsdóttir hefur verið ráðin sérfræðingur í hjúkrun nýrnasjúklinga á Landspítala.
Elínborg lauk MS námi árið 2013 frá Háskóla Íslands og hlaut sérfræðiréttindi í hjúkrun 2017. Meistararitgerð hennar var samþætt fræðilegt yfirlit og fjallaði um hjúkrunarþjónustu fyrir einstaklinga með langvinna nýrnabilun og fjölskyldur þeirra. Elínborg hóf í framhaldi af meistaranáminu starfsnám til sérfræðiréttinda í hjúkrun. Í starfsnáminu vann hún að þróun göngudeildar fyrir einstaklinga með langvinna- og lokastigsnýrnabilun (göngudeild forskilunarsjúklinga).
Elínborg hefur starfað allan sinn starfsaldur á Landspítala og frá árinu 2000 á skilunardeildinni. Sem sérfræðingur í hjúkrun mun Elínborg halda áfram þróun göngudeildar forskilunarsjúklinga, hjúkrun sjúklinga í skilun ásamt öðrum verkefnum tengdum hjúkrun nýrnasjúklinga.