Framkvæmdastjórn Landspítala hefur samþykkt jafnréttisáætlun og framkvæmdaáætlun jafnréttismála fyrir árið 2018. Mikilvægur hluti af eflingu jafnréttisstarfs á Landspítala er að starfandi sé öflug jafnréttisnefnd. Óskað er eftir tilnefningum starfsfólks í nefndina en áformað er að endurskipa í nefndina í maí á þessu ári og tilkynna á ársfundi Landspítala, 16. maí.
Verkefni jafnréttisnefndar Landspítala snúa einkum að III. kafla jafnréttislaga þar sem fjallað er um markvisst jafnréttisstarf á vinnumarkaði, skylduna til að vinna gegn kynjaskiptingu starfa, launajafnrétti, jafnrétti við ráðningar, starfsþjálfun, endur- og símenntun, samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs og fyrirbyggjandi starf gegn kynbundnu ofbeldi, kynbundinni og kynferðislegri áreitni. Jafnréttisnefnd Landspítala er þó einnig heimilt að taka til umræðu mál sem snúa að fjölbreytileika og jafnræði starfsmanna Landspítala út frá öðrum bakgrunnsþáttum, svo sem aldri, þjóðernisuppruna, kynhneigð eða trúarbrögðum. Jafnréttisnefnd fylgist með gögnum um jafnréttismál, gerir tillögur til framkvæmdastjórnar og fjallar um og ýtir undir aðgerðir til að tryggja jafnrétti, fjölbreytileika og jafnræði meðal starfsfólks Landspítala.
Allt starfsfólk Landspítala getur tilnefnt í nefndina, annað hvort sjálft sig eða samstarfsfólk. Tilnefningum skal skilað til framkvæmdastjóra mannauðssviðs, Ástu Bjarnadóttur (astabj@landspitali.is), eigi síðar en 1. apríl 2018. Forstjóri skipar síðan fimm einstaklinga í nefndina, að undangenginni athugun á áhuga viðkomandi.
Jafnréttisnefnd Landspítala
Jafnréttisáætlun Landspítala
Framkvæmdaáætlun jafnréttismála