Kæra samstarfsfólk!
Enn og aftur er álag á Landspítala í sviðsljósi fjölmiðla. Í vikunni lýsti aðstandandi því sem við henni blasti þegar hún þurfti að leita aðstoðar okkar með aðstandanda sinn. Í kjölfarið hefur skapast mikil umræða um stöðuna á Landspítala.
Við erum hér til að lækna og líkna, sama hvaða starfi við gegnum á Landspítala. Það er okkur starfsfólki Landspítala afskaplega mikilvægt og raunar markmið að þeir sem til okkar leita upplifi fagmennsku og öryggi. Því miður var því ekki að heilsa í þessu tilviki hvað öryggið varðar og það hryggir mig og okkur öll.
Ekkert í þeirri stöðu sem upp er komin kemur okkur á óvart og ætti ekki að koma neinum á óvart. Í tugi ára hefur legið fyrir að við stefndum að þessum ósi enda öldrun og fjölgun þjóðarinnar fyrirséð. Samhliða sjáum við gríðaraukningu í þjónustu við erlenda ferðamenn og fjölgun erlends farandverkafólks. Allt þetta leggst á eitt við að auka þungann á Landspítala en við höfum þó verið vakin og sofin í að leita fjölbreyttra og hugvitsamlegra lausna til að bregðast við. Skemmst er að minnast opnun bráðalyflækningadeildar sem valdið hefur straumhvörfum hjá okkur, fjölbreyttar meðferðarleiðir fyrir aldraða einstaklinga sem til okkar leita auk þess sem við vinnum mjög markvisst eftir hugmyndafræði straumlínustjórnunar í flestu sem við gerum og stöndum sennilega þar í fylkingarbrjósti á landsvísu.
Hér tæpi ég auðvitað bara á örfáum atriðum, ég gæti að líkindum gefið út ritröð um viðbrögð okkar við „álaginu á Landspítala“. Við höldum áfram ótrauð en eins og ég hef ítrekað bent á þá eru lausnir hér innanhúss orðnar afar takmarkaðar og það er brýnt öryggismál fyrir landsmenn alla að tekið sé á þeim vanda sem úrræðaleysi utan spítalans veldur, sér í lagi í málefnum aldraðra. Tölurnar tala sínu máli hvað aukninguna varðar og sýna einnig að þrátt fyrir gríðarlega vinnu okkar á spítalanum til að mæta þessu álagi dugir það ekki til. Ágætur mælikvarði á stöðu spítalans, sem einmitt birtist aðstandandanum sem ég nefndi hér að ofan, er dvalartími sjúklinga á bráðamóttöku eftir að ákveðið hefur verið að viðkomandi þurfi innlögn á sérhæfða bráðalegudeild. Viðmiðið er 6 klukkustundir enda sýna rannsóknir að því skemur sem biðin er því betur reiðir sjúklingnum af. Forsenda þess að unnt sé að innskrifa sjúkling á viðeigandi deild er auðvitað að þar sé pláss fyrir sjúklinginn. Þar af leiðandi er afar mikilvægt að þeir sem hafa þegar fengið þjónustu spítalans komist heim eða á viðeigandi stað sem fyrst. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd, sem sýnir þróunina síðasta ár og þróunina núna fyrstu tvo mánuði 2018, erum við fjarri markinu um þessar 6 klukkustundir og fjarlægjumst það raunar. Ánægjulega breytingin sem sést í sumarbyrjun í fyrra tengist opnun bráðalegudeildarinnar í maí. Því miður eru langtímaáhrif af opnun deildarinnar hverfandi á innlagnabiðtíma vegna sífellt vaxandi álags. Mikilvægi þjónustunnar og árangur hennar er hins vegar ótvíræður á sjúklinga deildarinnar.
Þessi staða skýrist af því að komum hefur fjölgað á bráðamóttökuna þegar saman eru bornir janúar og febrúarmánuðir áranna 2017 og 2018 svo nemur 4,6% Enn þyngra vegur að þeim fjölgar sömuleiðis hlutfallslega sem þurfa innlögn og frekari þjónustu.
Það á auðvitað ekki að þurfa frekari vitna við eða ákall almennings á samfélagsmiðlum - við þessari stöðu þarf að bregðast. Landspítali er sterk og öflug stofnun sem auðveldlega getur sinnt þeim vandasömu verkefnum sem honum eru falin enda starfsmenn hér í úrvalsflokki. Hér stundum við flóknar lækningar, vandasama hjúkrun og fjölbreytta teymisvinnu fyrir landsmenn. Það er hins vegar samfélagsins og stjórnvalda í sameiningu að gera okkur kleift að sinna þessu starfi af sóma á sama tíma og það er beinlínis skylda þessara aðila að tryggja viðeigandi og viðunandi þjónustu við sjúklinga utan spítalans. Við eigum nú í þéttu samstarfi við heilbrigðsráðherra og ráðuneyti hennar enda er þetta brýnasta verkefni samtímans. Öryggið er í húfi.
Góða helgi!
Páll Matthíasson