Kæra samstarfsfólk!
Í gær héldu samtökin Spítalinn okkar aðalfund sinn. Samtökin hafa það að markmið að berjast fyrir nauðsynlegum úrbótum á húsakosti Landspítala og vinna að uppbyggingunni við Hringbraut. Samtökin hafa sannarlega staðið sem klettur í umræðunni og hefur ekki veitt af. Á fundinum var staða verkefnisins kynnt, fjallað um hönnun þessa sjúkrahúss 21. aldarinnar ásamt mikilvægi notendastýrðrar hönnunar. Fjöldi starfsmanna Landspítala hefur komið að þessu mikilvæga verkefni og við fögnum því að nú líður að því að framkvæmdir við langþráðan meðferðarkjarna við Hringbraut fari að hefjast. Það var ánægjulegt að hlýða á hvatningarorð heilbrigðisráðherra í lok fundarins og mikilvægt að finna þéttan stuðning núverandi stjórnvalda eins og raunar allra forvera þeirra.
Í vikunni tilkynnti heilbrigðisráðherra þá ákvörðun sína að færa umsýslu og fjárhagslega ábyrgð vegna S-lyfja frá Sjúkratryggingum Íslands (SÍ) til Landspítala. Við fögnum þessari ákvörðun ráðherra eindregið enda er hér um að ræða afar vandmeðfarinn málaflokk þar sem mikilvægt er að fagleg og fjárhagsleg ábyrgð fari saman. Með þessu fyrirkomulagi færumst við nú nær þeim hætti sem er annars staðar á Norðurlöndum í þessum flóknu málum. Við höfum hafið undirbúning að yfirfærslunni í samráði við SÍ og aðrar heilbrigðisstofnanir og leggjum mikinn metnað í að vel takist til í þessu mikilvæga máli.
Landspítali tekur nú í annað sinn þátt í starfsumhverfiskönnun ríkisstofnana sem ber yfirskriftina „Stofnun ársins“. Meðal þess sem spurt er um í þessari könnun er stjórnun, starfsandi, vinnuskilyrði, launakjör, ánægja og stolt, sveigjanleiki og jafnrétti auk sérstakra spurninga árið 2018 sem fjalla um upplifun af ofbeldi, áreitni og einelti. Það er mikilvægt fyrir okkur að fá góða þátttöku hér á Landspítala því niðurstöðurnar geta verið leiðbeinandi fyrir okkur og sett áherslur um hvernig við háttum starfinu í framhaldinu. Þá talar þessi könnun vel inn í þá vinnu sem nú fer fram um allan spítala í gerð samskiptasáttmála. Ég þakka ykkur öllum þátttöku þar og hvet þá sem hafa fengið boð til að taka þátt í þessari mikilvægu vinnu. Hvað starfsumhverfiskönnunina, sem Gallup framkvæmir, varðar munum við sjá samandregna styrkleika einstakra starfeininga og það sem betur mætti fara og verða niðurstöðurnar bornar saman við niðurstöðuna 2017. Við fáum einnig tækifæri til að bera okkur saman við heilbrigðisstofnanir og aðrar ríkisstofnanir almennt. Endilega svarið tölvupósti sem ykkur á að hafa borist frá Gallup.
Góða helgi!
Páll Matthíasson