Ríkiskaup veittu á innkaupadeginum 9. mars 2018 Landspítala viðurkenningu til opinbers aðila fyrir framúrskarandi árangur í hagnýtingu rammasamninga og annarra innkaupaleiða í opinberum innkaupum. Þetta er í fyrsta sinn sem slík viðurkenning er veitt. Kristján Valdimarsson, deildarstjóri innkaupadeildar, tók við henni fyrir hönd Landspítala.
Í umsögn um viðurkenninguna kemur fram að til grundvallar hefði m.a. verið áhersla Landspítala á vistvæn innkaup og þau fjölmörgu verkefni sem spítalinn hefur unnið í innkaupaverkefnum sem og við aðlögun ferla og aðferða.
Á árinu 2017 var Landspítali í fjölmörgum mismunandi innkaupaverkefnum. Fjárhagslegur sparnaður var um 840 milljónir króna miðað við eitt ár. Umhverfisskilyrði hafa verið sett í flest útboð og verðfyrirspurnir. Á þessu ári mun auk hefðbundna verkefna innkaupadeildar verða lögð rík áhersla á samkeppnisréttaráætlun Landspítala sem nú er verið að kynna fyrir lykilstjórnendum.
Leit
Loka