Kæra samstarfsfólk!
Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur lagði fram 5 ára fjármálaáætlun sína í vikunni. Ánægjulegt er að sjá að áform um uppbyggingu Landspítala við Hringbraut eru þar endanlega staðfest. Orkan sem farið hefur í ómarkvissa umræðu um byggingu spítala einhvers staðar einhvern tíma, ætti því að geta beinst í þarflegri farveg umræðu um uppbyggingu næstu kynslóðar spítala innan einhverra tuga ára. Það má með sanni segja að ef það er eitthvað sem læra má af umræðu síðustu ára um staðarval og þann langa tíma sem það tók stjórnvöld og samfélagið að ákveða með hvaða hætti skyldi ráðast í uppbyggingu á því spítalaþorpi sem nú er að rísa, þá er lærdómur falinn í því að vanmeta ekki hversu langan tíma samfélagið þarf til að lenda slíkri ákvörðun. En við horfum bjartsýn áfram veginn í þessu efni nú.
Hvað fjármálaáætlunina að öðru leyti varðar er erfitt að átta sig á inntaki hennar fyrir Landspítala og rekstrarumhverfi næstu ára. Ekki er greint á milli rekstrar og fjárfestingar en almennu markmiðin virðast þó vera að bæta rekstrarumhverfi sjúkrahúsa sem hlýtur að vera fagnaðarefni. Útfærslan bíður væntanlega fjárlaga hvers árs.
Deila Ljósmæðrafélags Íslands og samninganefndar ríkisins harðnar dag frá degi. Þegar hefur á þriðja tug ljósmæðra sagt upp störfum á spítalnum af þeim ríflega 150 sem hjá okkur starfa. Þetta er verulegt áhyggjuefni enda er það okkar reynsla að jafnvel þó að samninganefndirnar nái saman hefur þegar komið rót í huga margra þeirra sem sagt hafa upp að nýir samningar skila ekki öllum til baka. Lengi vel var staðan sú að eftirsóttasti vinnustaður ljósmæðra var á Landspítala enda hér verkefnin mest krefjandi og faglegar áskoranir miklar. Þessi staða hefur breyst og því eru harðar kjaradeilur eins og þessar afar slæmar fyrir starfsemi þar sem mikilvægi öflugrar fagþjónustu hæfustu ljósmæðra ætti að vera öllum ljós. Ég hvet því samningsaðila eindregið til að klára samningsgerð sem allra fyrst. Þetta er óþolandi staða.
Hefð hefur skapast hjá okkur hér á Landspítala að bjóða starfsfólki að sækja starfslokanámskeið þegar líður að starfslokum. Þetta eru mikilvæg námskeið, bæði fyrir þá sem þau sækja sem og okkur sem stöndum fyrir þeim. Ég á venjulega pláss í stundarskrá námskeiðsins sem lýkur svo með starfslokaboði og ég reyni að nota tækifærið til að fá svolítið lán í reynslubanka þeirra. Það er auðsótt. Þetta eru afskaplega ánægjulegar stundir enda mikilvægt að ljúka starfsævinni sáttur við framlag sitt. Á þessum námskeiðum eru einmitt oft aðilar sem helgað hafa alla sína starfsævi Landspítala. Þá er ekki minna mikilvægt að þakka mökum og fjölskyldum þessara starfsmanna sem oftar en ekki hafa mátt sjá á eftir ástvini sínum til starfa á Landspítala um hátíðar, á stórafmælum og um miðjar nætur. Takk, þið öll!
Góða helgi!
Páll Matthíasson