Slegið var upp veislu á kviðarhols- og þvagfæraskurðdeild 13EG 15. mars 2018 í tilefni af því framkvæmdum vegna endurbóta og sameiningar á deildinni er nú að fullu lokið. Forstjóri og framkvæmdarstjórn fögnuðu með stjórnendum og starfsfólki deildarinnar, iðnaðarmönnunum sem að verkinu komu og fleiri gestum.
Fyrir rúmum tveimur árum var ákveðið að sameina kviðarholsskurðlækningar sem áður voru á 12G og 13G á einni og sömu deildinni og búa til stóra skurðdeild á þriðju hæðinni á Landspítala Hringbraut. Markar þetta skref lok sameiningar kviðarholsskurðlækninga á Landspítala sem í raun hófst með sameiningu spítalanna árið 2000.
Leiðarljós sameiningarinnar var að nýta sérþekkingu og reynslu starfsfólks á báðum deildum betur auk þess sem samlegðaráhrif fengjust í mönnun. Þá var markmið húsnæðisbreytinganna að bæta aðbúnað sjúklinga og starfsmanna til muna, m.a. með því að stækka einbýli, fjölga salernum, bæta baðaðstöðu og endurskipuleggja vakta- og vinnuherbergi. Þess utan var farið í gæðaverkefni þar sem m.a. lyfjaherbergi, lagerar og línherbergi voru endurskipulögð og merkingar bættar til að bæta aðgengi að aðföngum.
Mikil ánægja er með breytingarnar og þykir starfsfólki vel hafi tekist til.